föstudagur, október 01, 2004

Næturvakt

Var á næturvakt s.l. nótt. Held reyndar að ég hljóti að hafa villst og lent á vitlausri deild. Er handviss um að ég var ekkert að vinna á lungnadeildinni í gær, þetta var sko örugglega geðdeild.

fimmtudagur, september 30, 2004

Þetta var örugglega bara kall á athygli

Hafiði ekki heyrt þetta sagt þegar einhver er að tala um eða hóta sjálfsmorði? Hún gerir þetta aldrei, þetta er bara athyglisþörf... þetta er bara hróp á hjálp... þetta er bara...

Stundum finnst mér þetta hljóma eins og það sé einhver svakalegur aumingjaskapur að hóta sjálfsmorði en ætla sér í raun ekki að standa við það. Stundum mætti halda að fólki finnist það meira virðingarvert að standa við það að drepa sig, fyrst maður var að hóta því... annað er jú BARA athyglisþörf. Svo gleymir fólk nú líka að hugsa út í það að sumar svona ATHYGLIS-sjálfsmorðstilraunir takast nú bara ansi vel, einmitt af því að fólk hugsaði að þetta gerir hann aldrei, þetta er bara hróp á athygli.

Já, kannski, og VONANDI, er það þannig, því það er mun alvarlegra ef fólk virkilega ætlar sér að binda endi á líf sitt. En ef þessum athyglisköllum er aldrei sinnt, þá getur það vel endað með að viðkomandi einmitt taki líf sitt, þó það hafi í raun ekki verið ætlunin. Fólk er ekki að kalla á athygli með þessum hætti nema því líði verulega illa á einhvern hátt.

Þannig að það á alltaf að taka sjálfsvígstali alvarlega, það gæti kannski bjargað einhverjum, þó svo að þetta hafi BARA verið athyglisþörf.

miðvikudagur, september 29, 2004

Sokkaskrímsli eru raunveruleg

Hvað er þetta með sokka eiginlega??? Ég keypti tvö pör handa Hjalta um daginn, tvö handa Örnu og heil FIMM handa Elísu. Eitt parið hans Hjalta hvarf strax, ÁÐUR en hann nokkurn tíman notaði þá. Finn eitt heilt par og einn SOKK af Örnu sokkum, og af Elísu sokkum finn ég líka eitt heilt par og einn sokk... af FIMM pörum!!!!! Þetta er frekar pirrandi. Sokkarnir af þessum krökkum gjörsamlega hverfa. Mér finnst ég alltaf vera að kaupa nýja sokka á þau, sérstaklega Elísu. Hvað ætli það hafi horfið mörg sokkapör af henni eiginlega? Ég er farin að trúa á sokkaskrímsli, engin önnur útskýring á þessu.

þriðjudagur, september 28, 2004

Ótrúlegt

Arna og Hjalti eru ekki að slást og rífast. Þau sitja bara svo góð inni í herbergi og eru að kubba. Hvað er í gangi?

Annars er ég bara kvefuð og slöpp. Þó skárri en í gær. Blöööö hvað mér leiðist eitthvað að vera svona.