laugardagur, júlí 03, 2004

Næturvaktir

Er það ekki alveg dæmigert. Næturvaktahelgi hjá mér og þá er þetta frábæra veður, einmitt þegar ég þarf að eyða öllum deginum í að sofa. Svona var þetta líka síðast þegar ég var á næturvöktum. Síðan átti ég tvær helgar frí og þá var rigning og skýjað. Nú er aftur næturvaktahelgi hjá mér og þá skín sólin og hitinn fer upp í 20-25 gráður eða svo. Svo var verið að biðja mig um að taka tvær aukanæturvaktir næstu helgi, ætli ég geri það ekki og fæ 100% álag ofan á þær ;) Ágætt að vinna sér inn smá aukapening áður en maður fer í sumarfrí.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Sveitasæla

Ég er svona aðeins að reyna að plana Íslandsheimsóknina. Ég er að vonast til að mjónurnar mínar geti smalað sér saman í eina sveitahelgi með mér. Ég er búin að panta Högnastaði helgina 13.-15. ágúst og vona bara að þær geti komið sem flestar. Þetta er svo frábær staður fyrir bæði krakka og fullorðna. Högnastaðir er gamall sveitabær þar sem ég átti heima þegar ég var lítil. Mamma og pabbi eiga húsið enn og núna er þetta griðastaðurinn okkar :D Yndislegt að fara þarna. Við munum fara svo til beint þangað þegar við komum til Íslands og vera þar um verslunarmannahelgina ásamt mömmu og pabba. Svo vona ég sem sagt að stelpurnar geti komið með fjölskyldum sínum þriðju helgina í ágúst.

Sorglegt

Hann Kristófer litli, sem svo margir á Barnalandi og víðar hafa fylgst með, er dáinn. Hann lést í gær, rétt fyrir klukkan átta að kvöldi til, í örmum móður sinnar. Fyrir þá sem ekki vita þá fæddist Kristófer löngu fyrir tímann og þurfti allt sitt stutta líf að berjast við alvarlegan lungnasjúkdóm vegna óþroskaðra lungna sinna. Þessi litla hetja þraukaði í mera en 4 mánuði held ég, en varð að lokum að láta undan. En nú er hann loks frjáls og laus undan erfiðinu og þjáningunum. Ég hugsa til foreldra hans núna, sem hljóta að eiga afskaplega erfitt. Vonandi finna þau leið til að takast á við sorgina og vinna úr henni. Mikið afskaplega er ég þakklát fyrir að eiga þrjú heilbrigð börn. Ég held að þetta hljóti að vera það versta sem foreldrar geti upplifað, að missa barnið sitt. Þegar ég frétti af þessu með Kristófer í gær kom það mér í raun ekkert á óvart, ég er meira hissa á hvað hann barðist lengi þessi litla hetja. En þó ég þekkti hann ekki neitt, né foreldra hans, þá runnu bara tárin. Samt var mér að sumu leyti létt að litli drengurinn hefði fengið friðinn, þetta virtist allt vera orðið svo ofboðslega erfitt hjá honum. Ég held að stundum sé jafnvel erfiðara að horfa á barnið sitt berjast og þjást svona rosalega, heldur en að leyfa því að fara og fá hvíldina. Ég vona bara að ég þurfi aldrei að upplifa þetta sjálf.

Ég sendi foreldrum Kristófers og öðrum ástvinum mínar innilegustu samúðarkveðjur.