laugardagur, mars 13, 2004

Við gerðum nú bara það besta úr þessari snjókomu og fórum út í snjóþotuferð. Það var sko ekkert smá snjókoma og við vorum orðin hundblaut eftir smá tíma. En þetta var voða gaman. Ég og Elísa drógum Örnu og Hjalta á snjóþotum, svo róluðum við og vógum salt, og hentum svo snjóboltum í hvort annað. Bjuggum til snjóengla og snjókökur... svaka fjör ;) Svo fórum við inn og elduðum hakk og spagettí sem féll vel í kramið hjá krökkunum sem voru orðin glorsoltin. Mission Uppvask II var næstum klárað, og reyndar er Mission Þvottafjalli ekki alveg lokið.

Hjalti er að flippa út hérna. Gargar "hættu" og "uss" á stelpurnar sem eru eitthvað að atast, og er svo með helmingi meiri læti sjálfur. Held bara að það sé kominn einhver svefngalsi í hann, hahaha, hann er ógeðslega fyndinn ;D

OOOOOOOOOOOOOHHHHHHHHHHHHHHHHH!!!!!

Það er farið að SNJÓA aftur. Og ég sem hélt að við værum laus við þennan leiðinda snjó. Já, ok, snjór getur verið skemmtilegur, en ég er búin að fá HUNDLEIÐ á vetri og SNJÓ!!!! Best að reyna bara að halda áfram að laga til í þessari ruslakompu. Mission Uppvask var klárað í gær, reyndar bíður mín Mission Uppvask II (þetta er nú eiginlega Mission Impossible), en fyrst ætla ég að demba mér í Mission Þvottafjall.

Jæja, ég fór að dæmi Hörpu og klippti gaurinn minn með rakskera föður hans. Útkoman var bara nokkuð góð þó ég segi sjálf frá ;) En auminginn litli er með augnsýkingu og er agalega rauður og bólginn, sérstaklega í hægra auganu. Ég ætla að skreppa niður á spítala á eftir og fá smá saltvatn til að skola augað með. Svo verð ég bara að sjá til hvort ég þurfi að fara með hann til læknis ef þetta fer ekki að lagast. Litla skinnið.


föstudagur, mars 12, 2004

OOOOOOHHHHHH!!!! *PIIIIIIIIRRRRRR*

Norðmenn eru klikk! Þeir létu AHN detta út úr Idol en Sandra komst áfram. Ég held bara að þeir hafi ekki eyru, allavegana ekki tóneyru. Ahn átti sko EKKI skilið að detta út, alveg toppsöngkona með spes rödd. Dem! Well, ég get svo sem lítið gert við því nema að pirrast og er hér með búin að því.

Yndislegt! Ég er komin í helgarfrí. Var að enda við að horfa á Idol og koma svo börnunum í háttinn. Hjalti litli þrjóskupúki er náttúrlega ekki enn búinn að gefast upp á að koma fram... eða hvað? Hann er reyndar búinn að haldast í rúminu núna í svona 10 mínútur. Ég heyri samt í honum röfla við sjálfan sig. Arna rotaðist nú bara næstum um leið og hún lagðist á koddann. Elísa stóra stelpa er að vísu í baði og ætlar að fá að horfa á úrslitin úr þætti kvöldsins af Idol. Hún heldur sko með Margaret og Susanne. Ég held með Margaret og Kjartan ;) en Susanne er líka góð. Vona bara að Sandra litla sæta, sem kann samt ekki að syngja, fari ekki áfram :Þ

Hey og vigtin er á leið niður, jibbí, jibbí. Ekki svo sem gífurleg hreyfing en 400 grömm farin á einni viku.... í heildina 28,8 kg farin síðan ég byrjaði í þessu átaki. Ekki slæmt það ;) En enn eru um 10-15 kg eftir þar til ég verð alveg sátt. Vona að ég nái nú allavegana svona 5-7 fyrir sumarið.

Eins gott svo að taka til á morgun. Það er gjörsamlega ógeðslegt hérna (ætti kannski bara að sækja hana Sísí í Sarpsborg og leyfa henni að taka til hér. Henni leiðist víst svo :þ).

Hmmm, en þarna kom Hjalti fram. Best að fara með hann aftur inn í rúm... í svona 54. skiptið í kvöld.

Mikið var gott að fá að sofa frameftir í dag. Er búin að vera á morgunvöktum í vinnunni sunnudag, mánudag, þriðjudag og miðvikudag. En var svo á kvöldvakt í dag svo ég gat sofið fyrir hádegi ;) Nææææs! En svo þarf ég að mæta í fyrramálið aftur :/ Er bara hrikalega fegin að vera svo komin í helgarfrí eftir það ;D

P.S. Hjalti duglegi KÚKAÐI í koppinn í dag :D

miðvikudagur, mars 10, 2004

LOL þetta er nú bara fyndið. Sá þetta test á blogginu hennar Laugu og hér er útkoman fyrir mig:

CWINDOWSDesktopPowerRangeres.jpg
Power Rangers Movie!


What movie Do you Belong in?(many different outcomes!)
brought to you by Quizilla

Ég veit ekki einu sinni hvaða mynd þetta er, en lítur út fyrir að vera um einhverjar hrikalega væmnar og góðar hetjur, hahaha, er það ég? LOL!!!

Var að glugga í tímarit í matartímanum um daginn og sá þar áhugaverða grein. Hún var um norska konu sem lenti í því á fyrstu meðgöngu sinni að fylgjan óx í gegnum legvegginn hjá henni, sem var óvenju þunnur. Legið brast vegna þessa og það fór að blæða rosalega. Til að reyna að bjarga lífi móður og barns var konan auðvitað send strax í aðgerð. Læknunum tókst því miður ekki að bjarga barninu, en bjöguðu lífi móðurinnar.

Svona tilvik, þegar fylgjan vex í gegnum legvegginn, eru mjög sjaldgæf og afskaplega hættuleg. Hér í Noregi eru víst bara þekkt um 80 tilvik (man ekki á hvað mörgum árum en ég held hreinlega bara að þetta séu tölurnar frá upphafi svona fæðingarskráninga), en hér búa um 4,5 milljón manns. Lífslíkurnar þegar svona gerist og legið brestur, eins og gerðist í þessu tilviki, eru ansi slæmar, og eina leiðin til að stoppa blæðinguna er hreinlega að fjarlægja legið... eða það var þannig þar til þessi kona kom inn í aðgerð. Því læknarnir tóku þá merkilegu ákvörðun að reyna að bjarga legi konunnar og saumuðu það saman eftir að búið var að skera fylgjuna burt. Það eru ekki mörg ár síðan þetta gerðist og þetta hafði aldrei verið gert nokkurn tíman áður í heiminum. Enginn vissi því hver útkoman yrði og hvort leg konunnar, sem var nú þunnt og viðkvæmt fyrir, myndi nokkurn tíman þola aðra meðgöngu. En eitthvað varð til þess að læknanrir vildu reyna þetta, kannski vegna þess að konan öskraði í örvæntingu sinni þegar henni var rúllað inn á skurðstofuna: "EKKI SNERTA BARNIÐ MITT!!!"

Þessi kona tók áhættuna á að verða ólétt aftur og var mjög náið fylgst með henni á meðgöngunni. Barnið var svo tekið með keisara svolítið fyrir 40 vikurnar, því það var engin áhætta tekin með hvernig legið myndi þola hríðarnar. Gegn öllum líkum þá eignaðist konan heilbrigðan dreng og bætti svo um betur tveimur árum seinna og eignaðist annan heilbrigðan dreng, sem líka var tekinn með keisara.

Þetta þótti stórfrétt í læknavísindunum að legi konunnar hefði verið bjargað eftir svona dæmi og hvað þá að hún hefði gengið með og eignast heilbrigt barn... meira að segja TVÖ... eftir þetta allt saman. Eftir að þetta gerðist hér í Noregi hafa verið nokkur tilvik þar sem legi konu hefur verið bjargað eftir svona legbrest, en man nú ekki hvort nokkur þeirra kvenna hafi eignast tvö börn eftir svona aðgerð. Sannkölluð kraftaverkabörn þessir litlu norsku piltar :D

þriðjudagur, mars 09, 2004

Það eru ekki bara mömmur sem eru hrifnar af súkkulaði. En þessi súkkulaðimunnur er nú ekki vegna neins kolvetnissnauðs súkkulaðis, heldur bara venjulegs gamaldags súkkulaðikexs ;)

JIBBÍ!!! Kolvetnasnauða súkkulaðið mitt er komið. Ég nefninlega pantaði svona af netinu, það fæst sko allt í Ameríku. Pantaði þetta af http://www.synergydiet.com/. Annars var ég nú að frétta eitthvað svona kolvetnasnautt súkkulaði fáist í Hagkaupum á Íslandi, verð að láta mömmu athuga það. En svakalega er nú gaman að geta étið súkkulaði með GÓÐRI samvisku :D

mánudagur, mars 08, 2004

Ég er þreytt í dag. Er að vinna smá törn núna og sef of lítið. Mig vantar fleiri klukkutíma í sólarhringinn. Steinsofnaði í sófanum áðan þegar Elísa var svo væn að fara út með Örnu að leika og Hjalti var upptekinn við að horfa á Stubbana. Annars er það bara stanslaust mamma mamma mamma, maður er svo vinsæll sko ;)

Ég sakna heitu pottanna og sundlauganna að heiman. Rosalega hefði verið næs að skella sér í sund núna og hressa sig við og slappa svo vel af í heita pottinum á eftir, buhuhuhu! Ætla sko í sund þegar við förum heim í sumar... þ.e. ef fjárhagurinn leyfir Íslandsferð ;)

Svona til að koma öllum í gott skap, kíkið á þesar síður - leyfðar fyrir alla aldurshópa ;)

http://www.madblast.com/funflash/swf/splishsplashbaby.swf

http://www.madblast.com/view.cfm?type=FunFlash&display=1617

sunnudagur, mars 07, 2004

Ótrúlega fyndið hvað manni finnst litlir hlutir stundum merkilegir. Hann sonur minn, sem er 21 mánaða, hefur svona stundum sest á koppinn og prófað en aldrei hefur nú neitt komið í þennan blessaða kopp (annað en hlutar af púsluspili, kubbakallar og eitthvað fleira í þeim dúr). Svo er ég að skipta á bleiu áðan og pjakkurinn stingur af bleiulaus, sækir koppinn og segir PISS PISS, sest á hann og PISSAR!!! Meira að segja rembdist til að koma einhverjum dropum þarna út. Híhíhí! Og svo er maður að drepast úr monti yfir nokkrum pissudropum í koppi, hahaha ;D

Langar nú að benda ykkur sérstaklega á bloggið hjá henni Hörpu, mömmu hennar Perlu Dísar. Harpa er sko algjör hetja, stendur á sínu og lætur ekki vaða yfir sig. Ég hef nú ekki þekkt hana lengi, og bara í gegnum netið, en það er svo greinilegt hvað hún er yndisleg manneskja, sterk og hreinskilin. En allavegana þá er bloggið hennar hér HaRpA SkArPa - endilega kíkið ;)

Ég er svo mikið enn að spá í þessu máli. Ein netvinkona mín kom með fleiri góð umhugsunarefni og benti t.d. á að börn taka svona hlutum oft miklu léttara en fullorðnir myndu gera, og að fullorðnir eigi það til að yfirfæra sínar tilfinningar á börn og halda því að þau bregðist við eins og þeir sjálfir. Enn fremur benti hún á að netið er á margan hátt búið að leysa af bréfaskriftir og myndaalbúm fólks.

Mér fannst þetta afskaplega góðir punktar og er bara abbó yfir að hafa ekki fattað þá sjálf :Þ. En ég hef nú einmitt oft pælt í þessu hvað netið er orðinn stór hluti af samskiptum okkar við aðra og hefur orðið til þess að samskipti eru líka opnari og ná til fleiri. Um daginn var verið að tala um á umræðunni á Barnalandi hversu mörg börn virðast vera að deyja nú til dags. Ég hins vegar held að það séu ekkert fleiri börn að deyja nú en áður, frekar öfugt. En með tilkomu netsins fréttir maður af miklu fleiri börnum sem deyja. Eins þá er maður alltaf að uppgötva einhver alvarlega veik börn, langveik börn og/eða ffötluð börn Barnalandi og víðar, og margir fylgjast reglulega með þeim og baráttu þeirra. Ekki bara íslensk börn, heldur einnig erlend börn á erlendum síðum. Maður verður því mjög var við að það er ekkert sjálfgefið að eignast heilbrigt barn. Einu sinni þekktist það lítið á Íslandi að halda úti heimasíður fyrir börnin sín, var svona aðallega fyrir netnörrana, en með tilkomu Barnalands breyttist það allt. Þau settu upp aðgengilegt og imbahelt kerfi og eiga heiður skilið fyrir það (þó ég sé alls ekki sátt við aðgerðir þeirra í þessu minningarsíðnamáli). Núna þykir næstum skrýtið ef íslenskt barn á ekki heimasíðu á Barnalandi... eða allavegana á netinu. Eflaust hefur mörgum þótt það undarlegt hér fyrir nokkrum árum að foreldrar væru með svona síðu um barn sitt, þar sem persónulegar upplýsingar og myndir voru fyrir alla að skoða. Sumum hefur eflaust þótt þetta óviðeigandi og fundist að svona lagað ætti aðeins að vera fyrir nánustu fjðlskyldu... en svo breytast tímarnir.

Eins þykir einhverjum núna ekki eðlilegt að minnast látins barns með þeim hætti sem Harpa og fleiri kjósa að gera. En aðstæður eru bara svo mikið að breytast hér í heiminum með tilkomu netsins, að fólk getur notað fleiri leiðir til að vinna úr sorginni. Viðhorf þjóðfélagsins breytist líka með tímanum. Einu sinni voru t.d. konur ekkert að segja frá þegar þær voru óléttar, heldur var reynt að halda því leyndu sem lengst. Oft var engum sagt frá fyrr en það fór að sjást á konunni og fólk í raun búið að fatta það sjálft að hún væri ólétt. Þetta þótti einkamál parsins á þeim tíma, en í dag fá miklu fleiri að fylgjast með meðgöngunni og miklu fyrr... líka ókunnugt fólk á netinu eins og ég og þú ;)