laugardagur, mars 06, 2004

Jæja, það eru alldeilis búin að vera læti á Barnalandi og víðar, m.a. á Bylgjunni í Reykjavíks síðdegis og í DV, vegna deilna um hvort birta megi myndir af látnum börnum á minningasíðum þeirra. Tvennir foreldrar hafa verið með svona síður á Barnalandi, annað parið ákvað að binda endi á meðgönguna eftir að það kom í ljós í 19 vikna sónarnum að barnið var með mjög alvarlegan fæðingargalla sem kallast anencephaly, en þá þroskast heilinn ekki og barnið á ekki nokkra einustu möguleika á lífi utan móðurkviðs. Barn hins parsins dó í móðurkviði á 36. viku meðgöngu og fæddist því andvana.

Stjórnendur Barnalands vildu fyrst banna slíkar myndbirtingar með öllu og rökin voru að ófrískar konur sem álpast inn á þessar síður geti brugðið í brún og sé ekki gott fyrir andlega heilsu þeirra, börn geti álpast inn á þessar síður og orðið smeyk, viðkvæmir fullorðnir geti álpast inn á þessar síður og brugðið í brún. Einnig tóku þau fram að þau hefðu fengið ábendingu frá skólayfirvöldum (hverjir eru nú það annars?) sem sögðust ætla að loka fyrir aðgang að Barnalandi ef þessar myndir væru ekki bannaðar. Eftir mikil og hávær mótmæli ákváðu þó stjórnendur Barnalands að leyfa þessar síður með þeim skilyrðum að albúmin með viðkvæmustu myndunum (hvaða myndir eru það annars?) yrðu læstar. Foreldrarnir voru ekki sáttir við þessa ákvörðun þar sem þau vildu hafa síður sínar opnar öllum sem vildu skoða þær, þar á meðal albúmin.

Það eru til fjölmargar svona minningarsiður erlendis með myndbirtingum af látnum börnum svo þetta er ekkert einsdæmi. Get t.d. bent á http://www.euronet.nl/~lindboom/boubeng.htm og http://www.geocities.com/tabris02/emilyrose.html en þær eru báðar hluti af vefhringjum með fleiri svipuðum síðum. Þetta er því vel þekkt leið fyrir fólk að vinna sig í gegnum sorgina og flestir virðast alveg skilja það.

Mig langar aðeins að koma með rökin fyrir því að leyfa ætti þessar síður.

Þessir foreldrar eiga því miður ekki myndir af börnum sínum lifandi, þau höfðu aldrei kost á því. Sorgin er samt jafn mikil og þeim er mikið í mun að geta sýnt öðrum að barnið þeirra var raunverulegt BARN, ekki bara eitthvað fóstur eða prósentutala andvana fæddra barna. Þessar síður hjálpa þessum foreldrum og öðrum aðstandenum að takast á við sorgina, það hjálpar þeim að fá fallegar kveðjur í gestabókina, það hjálpar þeim þegar aðrir eru að segja þeim hvað barnið þeirra var fallegt, ath. BARNIÐ, ekki líkið eða fóstrið. Eins þá hef ég heyrt margar á umræðunni á Barnalandi lýsa því yfir hvað þeim hafi fundist gott að skoða þessar síður, hvað þær hafa kennt þeim að meta lífið meira og vera innilega þakklát yfir að eiga heilbrigð og/eða lifandi börn. Einnig hafa þó nokkrir skrifað kveðjur í gestabókina um hvað þessar síður hafa reynst þeim mikil hjálp í eigin sorg við barnmissi. Síðurnar sýna þeim að það ER í lagi að tala um sorgina og tala um barnið og gleðjast yfir að eiga fallegar myndir af því. Þetta sýnir einnig vinum og kunningjum þessara aðila að það er allt í lagi að spyrja þau út í barnið þeirra og jafnvel fá að skoða myndir af því, en það getur verið mikill sálarplástur fyrir foreldra að fólk sýnir þessu áhuga og skilur að þetta var lítið barn sem allt í lagi er að skoða myndir af. Sýnir þeim að barn þeirra er viðurkennt. Oft veit fólk ekki hvernig það á að koma fram við foreldra sem missa barnið sitt og forðast þetta umræðuefni, en þessar síður hafa hjálpað þeim að nálgast það og ræða þetta við syrgjendur.

Hvað varðar að börn séu að ráfa inn á svona síður þá er það auðvitað leitt ef þeim bregður í brún, en hins vegar er ég á þeirri skoðun að það sé á ábyrgð foreldra hvað börnin þeirra eru að skoða á netinu. Ef svo vill til að barn rambi þarna inn og verði smeykt þá fyndist mér það tilvalin ástæða til að taka þetta upp og ræða við barnið, útskýra aðeins dauðann og þessar myndir. Ég velti líka fyrir mér hvort það sé betra fyrir barn sem slysast inn á svona síðu að fá hneykslisraddir og tal um hvað þetta sé ógeðslegt og banna þeim að skoða þetta aftur, eða hvort það hagnist þeim betur að setjast niður með þeim, ræða myndirnar og dauðann, sorgina og ástina til barnisns sem skín í gegn frá aðstandendum þessara síðna. Þetta eru fallegar myndir og sýna dauðann líklega í einni af sinni fallegustu mynd. Það er margt annað mun ógeðfelldara sem hægt er að ramba á á netinu. Ég veit líka til að þessar síður hafi einmitt verið notaðar af foreldrum til að ræða við barnið um dauðann, þar á meðal af mér. Svo er ég líka að velta fyrir mér afhverju börn óttast svona myndir. Mín gerðu það alls ekki. Hver er munurinn á þeim og þeim börnum sem verða smeyk? Nú er t.d. Elísa, sem er níu ára, alveg rosalega tilfinninganæm en þetta skelfdi hana ekkert, og ekki heldur Örnu sem er nú bara fjögurra ára. Smitum við ekki bara okkar eigin ótta yfir á börnin? Þau fæðast ekki með ótta við svona myndir.

Varðandi hótun skólayfirvalda um að loka á aðgang að Barnalandi ef þessar síður verði ekki lokaðar þá velti ég fyrir mér hvort aðgangur að mbl.is, visir.is og erlendum fréttamiðlum á netinu sé lokaður, en þar er oft hægt að finna óhuggulegar myndir í sambandi við fréttaflutning. Eins finnst mér þetta einungis gefa tilefni til umræðu í skólanum, því dauðinn er vissulega þarft umræðuefni.

Í sambandi við ófrískar konur eru líklega þær velflestar fullorðnir og sjálfstæðir einstaklingar sem geta sjálfar tekið þá ákvörðun hvort þær kjósi að skoða myndaalbúm með myndum af látnum börnum. Ég velt líka fyrir mér hvort þá eigi að banna umræður um hræðilegar fæðingarsögur, hvort eigi að banna myndir af veikum og fötluðum börnum, t.d. á gjörgæslu kannski tengd við fullt af tækjum og tólum. Getur það ekki alveg eins verið slæmt fyrir andlega líðan ófrískra kvenna?

Hvers vegna er dauðinn svona mikið taboo? Hvers vegna má ekki hafa myndir af látnum börnum? Þetta eru í raun bara lítil börn með lokuð augun. Hér á árum áður var dauðinn ekki svona fjarlægur og börn komust alveg í náin kynni við hann. Fólk dó heima en ekki á sjúkrahúsum. Afhverju má ekki sjá dauðann sem fallegan, eins og þessar myndir lýsa.

Að lokum langar mig að benda á þvílík vanvirðing það er við foreldra þessa barna að banna þeim að hafa þessar myndir á síðum sínum opnar fyrir almenningi. Börn þeirra eru sem sagt ekki lögð að jöfnu við önnur börn, heldur gefin þau skilaboð að þau séu ógnvekjandi, óviðeigandi og ógeðfelld og að foreldarnir megi ekki takast á við sorgina eins og þeir sjálfir kjósa. Hvernig haldiði að foreldrum þessara barna líði með það að fá þessi skilaboð ofan á sorgina sem þau eru að glíma við? Ég held að fyrst og fremst sé það mikilvægt þessum foreldrum að geta verið stolt af börnunum sínum og geta sýnt öðrum að þetta voru lítil börn og litlir raunverulegir einstaklingar.

Ég skoðaði aðra þessa síðu, síðuna hennar Perlu Dísar (lykilorðið er harpa), með stelpunum mínum í gær og þeim fannst ekkert óhuggulegt eða ógeðslegt við hana. Elísa, þessi níu ára, fékk nú bara tár í augun, alltaf svo tilfinningarík, og vorkenndi barninu mjög mikið og fannst hún rosalega sæt. Arna, þessi fjögurra ára, talaði líka mikið um hvað litla stelpan væri sæt, en að hún væri með smá ó-ó á enninu og vorkenndi henni fyrir það. Svo sagði hún mér að stundum þegar börn væru með lokuð augun þá væru þau sofandi og ég ítrekaði bara við hana að þessi litla stelpa væri samt ekki sofandi heldur dáin. Svo sýndi ég þeim myndirnar af jarðaförinni og gröfinni og sagði henni að nú væri búið að jarða litlu stelpuna og hún væri í kirkjugarðinum. Arna, og auðvitað Elísa líka, hefur nefninlega oft labbað með okkur í gegnum kirkjugarðinn og við útskýrt að þar sé dáið fólk ofan í jörðinni, svo hún náði þessu alveg að litla barnið væri ofan í jörðinni. Var svo með pælingu um hvort að barnið gæti vaknað aftur og komið upp, en ég sagði henni að það væri ekki hægt þegar maður væri dáinn, en kannski væri litla stelpan núna hjá Guði. Ég er nefninlega ekki trúuð og bara get ekki sagt að barnið sé hjá Guði, en mér finnst allt í lagi að kynna hugmyndina fyrir krökkunum mínum og segja að kannski sé það þannig. Þau geta svo sjálf ráðið hverju þau vilja trúa.

Ég ræddi svo aðeins meira við Elísu og sagði henni að sumum þættu þetta óhuggulegar myndir og fyndist erfitt að skoða þær og að það væri allt í lagi. Sumum þætti bara svo erfitt að hugsa til þess að svona lítil börn deyi. En ég sagði henni jafnframt að mér fyndist ekki fallegt þegar fólk væri að segja að þessar myndir væru ógeðslegar því það særði foreldrana svo mikið. Mér fannst svo áhugavert þegar hún sagði á móti að þetta væru sko ekkert ógeðslegar myndir - þetta væri bara lítið barn, því ég hafði ekki sett það þannig upp. Þetta var bara beint frá hjartanu. Svo vildi hún fá að skrifa í gestabókina hennar Perlu Dísar og ég leyfði henni að gera það alveg sjálfri, skipti mér ekkert af því hvað hún skrifaði fyrir utan að ég bað hana að taka fram að hún væri níu ára. Hér er það sem hún skrifaði, mér finnst þetta svo sætt:

"Hæ mér finst þeta mjög sætar mindir mér finst þær alsekki ógeðslegar. Mér finst gröfin rosalega falleg og Perla Dís er rosalega sæt. Mér finst það rosalega sorglegt að hún dó. Ég veit kvað það er sorglegt þegar eitkver deir ég hev át hamstur sem dó. Annars er ég 9 ára. Kærleg kveðja frá Elísu Auði bless bless"

Ykkur sumum finnst ég kannski skrýtin að sýna þeim þessar myndir, en mér fannst þetta alveg rétt og gott að gera það. Ég var líka að hugsa að ef eitthvað dauðsfall kæmi fyrir í fjölskyldunni eða hjá vinum þá get ég alltaf vísað í þessa síðu, sérstaklega fyrir Örnu, og sagt "manstu eftir Perlu Dís? Nú er Xxxx dáin eins og hún".

Mér finnst ég á engan hátt hafa svipt börn mín sakleysinu með þessu, þau eru bara búin að læra aðeins meira um lífið og tilveruna og skilja örugglega dauðann aðeins betur og sjá að hann er ekki endilega ógnvekjandi og ljótur.

Annars er það hið besta mál að vakin sé athygli á þessu umræðuefni, því allt of oft er dauðinn bara þaggaður niður, sem gerir hann bara enn meira ógnvekjandi. Börn, og líka fullorðir, hræðast yfirleitt mest það sem þau þekkja ekki.

Kveðja,
Lilja