laugardagur, maí 08, 2004

Arna var í afmæli hjá Carl-Martin í dag og það var svaka gaman. Hann á víst alveg RIIISASTÓRT herbergi, væri nú ekki amalegt að hafa svoleiðis aðstöðu. Ég fór með krakkana í Torvbyen áður en Arna fór í afmælið og við keyptum afmælisgjöf handa Carl_Martin, og svo kjól, stuttermabol, sokka og skó handa Örnu, bara alveg nýtt sumardress. Hún er svaka sæt í þessu, valdi kjólinn sjálf sko. Ég þarf að skella inn myndum við tækifæri. Svo skrapp ég út með Örnu og Hjalta áðan, en Elísa fór í bíó með Karine og Bjöggi fór á pöbbinn að horfa á fótboltaleik ;) Það er frábært veður og við vorum bara úti á stuttermabolunum. Ég var aðeins að hjálpa Örnu að hjóla, jafnvægisskynið er nú ekki alveg það besta enþá, en þetta hlýtur allt að koma ;) Hjalti náttúrulega hjólar eins og herforingi á þríhjólinu sínu, eða bara sparkar sér áfram, hann kemst eiginlega hraðar þannig, haha. Svo fékk Arna að prófa hjólið hans Hjalta og hann var sko ekki par sáttur við það, öskraði bara og gargaði þar til Arna skilaði hjólinu. Algjör frekjuhundur. En síðan löbbuðum við bara út í búð og keyptum smá laugardagsnammi og krakkarnir sitja núna og horfa á Finding Nemo og éta nammi. Við eigum hana reyndar bara á ensku, en krakkarnir eru svo sem ekkert að agnúast mikið út í það. Elísa er reyndar ekki enn komin úr bíó, en hlýtur að fara að koma.

föstudagur, maí 07, 2004

Jibbí skibbí. Margaret og Kjartan verða þau sem keppa til úrslita. Að sjálfsögðu bestu söngvararnir. Þau stóðu sig rosalega vel í kvöld. Susanne var aðeins að klikka, enda var það hún sem datt út. En hún er samt með rosa spes og flotta rödd, höfum örugglega ekki heyrt það síðasta frá henni sko ;) Arna litla var svo þreytt að hún sofnaði í hægindastólnum, Hjalti sofnaði nú inni í rúmi og Elísa er að fara að sofa ;) Ég ætla bara að njóta þess að vera í fríi um helgina. Annars er Örnu boðið í afmæli á morgun, ætla að dobbla Bjögga til að fara með hana og reyna að laga aðeins til á meðan. Nenni sko engu í kvöld.

Það var afskaplega gaman að hjóla heim úr vinnunni áðan, í stuttermabol og 26 stiga hita. Virkilega ljúft. Nú sitja nágrannarnir og gestir þeirra með bjór úti í garði í góða veðrinu, en við höngum inni og erum að fara að horfa á Idol ;) Elísa er náttúrulega úti að leika og Bjöggi fór nú í fínan göngutúr með litlu krökkunum áðan og gaf mér tækifæri á að leggja mig aðeins eftir vinnuna. Annars er bara hrikalega heitt, en ég þori ekki að hafa gluggan opinn nema að sitja inni í stofu og fylgjast með. Hann opnast nefninlega svo svakalega upp á gátt og Hjalti er hættulega mikill prílari og finnst gaman að horfa út um opna glugga. En ég hlamma mér í sófann bráðum að horfa á Idol og þá ætla ég sko að galopna ;)

fimmtudagur, maí 06, 2004

Var að koma af kvöldvakt. Það gekk nú ágætlega, en ég er freeeeekar þreytt í lasna fætinum mínum núna. Ætla bara að setjast í sófann og leggja lappirnar upp í loft og svo fer ég bara bráðum að sofa.

Ég er svona að spekulera. Kunna söngvarar að leika, og kunna leikarar að syngja? Einu manneskjurnar sem ég man eftir að hafi plummað sig vel á báðum þessum sviðum eru Bette Midler, Jennifer Lopez og Harry Connick jr. Jú og Cher auðvitað, ekki má gleyma henni. Enda er hún prýðisgóð leikkona. Hmm, þetta voru nú nokkrir ;) Er samt ekkert of hrifin af Jennifer Lopez sem leikkonu, hún er flinkari að syngja. En hún hefur samt náð frama sem leikkona.

Það hafa nú samt margir leikarar reynt fyrir sér sem söngvarar og má þar nefna . Bruce Willis sem söng m.a. Under the Boardwalk, Nicole Kidman sem söng dúettinn Something Stupid með Robbie Williams, Gwyneth Paltrow sem söng Betty Davis eyes, Patrick Swayze sem söng She´s Like the Wind og Kate Winslet sem söng t.d. What If. Flestir svona lala söngvarar, Gwyneth Paltrow ætti nú reyndar ekkert að vera að reyna þetta. En allavegana er enginn þessara sem maður hoppar hæð sína í loft upp yfir, nema þá hún Kate Winslet sem er með alveg gífurlega fallega rödd.

Svo eru það söngvararnir sem hafa reynt fyrir sér sem leikarar. Madonna er sú fyrsta sem ég man eftir, hún var sko HRÆÐILEG þegar hún var að leika í sínum fyrstu myndum, eins og Desperatly Seeking Susan og Who´s That Girl, en hefur batnað mikið síðan. Mér fannst hún t.d. bara ansi góð í A League of Their Own. Svo er það hann Meatloaf kallinn, hann hefur leikið í nokkrum myndum og bara staðið sig ágætlega. Enginn Óskarsverðlaunahafi samt. Whitney Houston ætti að halda sig við sönginn og sleppa kvikmyndum. Britney Spears og Spice Girls.... *gubb*.

Munið þið eftir fleirum?

miðvikudagur, maí 05, 2004

Það er búið að vera skemmtilegur dagur í dag. Elísa Auður og bekkurinn hennar voru að sýna leikrit og við fórum auðvitað fjölskyldan að horfa á. Elísa stóð sig með prýði og talaði hátt og skýrt, annað en sumir þarna ;) Svo fékk ég óvæntan pening inn á reikninginn minn, virðist hafa átt inni eitthvað meðlag. Þannig að við hreinlega fórum og gerðum það sem við erum búin að ætla okkur að gera í tæp tvö ár; keyptum LOKSINS hjól handa Örnu. Hún átti líka alltaf eftir að fá afmælisgjöf frá okkur og við vorum svona búin að hugsa okkur að gefa henni hjól. Það varð ekkert úr að hún fengi þríhjól eins og ætlunin var fyrst, enda var hún þá næstum tveimur árum yngri. Málið var að við ætluðum alltaf að gefa henni þríhjól þegar við værum flutt til Noregs, en svo dróst það og dróst. En loksins fékk unga daman hjólið sitt, fallegt lítið tvíhjól sem við fundum á útsölu. Hún var auðvitað svaka ánægð og var að prófa það áðan... með töluverðri hjálp. Við ákváðum að vera ekkert að rugla hana með hjálpardekkjum, bara vera dugleg að fara með henni út og kenna henni á hjólið. Svo slógum við tvær flugur í einu höggi og keyptum þríhjól handa Hjalta, en hann á afmæli 22. maí, svo þetta verður afmælisgjöfin til hans frá okkur. Elísa Auður verður víst að bíða aðeins með að fá nýtt hjól, en hún þarf nú reyndar að fara að fá annað, hitt er orðið frekar slappt. En það bíður smá. En það voru sem sagt allir úti að hjóla, eða að hjálpa öðrum að hjóla, áðan ;) Hjalti var svaka ánægður með tvíhjólið sitt og kann sko alveg að hjóla, greinilega prófað þetta á leikskólanum. Enda var rosalega gott veður, búið að vera um 20 stiga hiti í allan dag og fram eftir kvöldi. Núna er klukkan að verða 23 og það er samt 16 stiga hiti, mmmm.

Gul og rauð og blá, gul og rauð og blá...

... það er lýsingin á löppinni minni. Er með þetta fína mar, en er orðin miklu betri og labba um eins og herforingi.

Annars er ég búin að vera að dunda mér aðeins við að gera uppskriftasíðu fyrir átaksbloggið mitt. Það er nú búið að taka sinn tíma, en ég er búin að setja nokkrar uppskriftir inn og fleiri eiga eftir að bætast við.

Ég fékk skemmtilegt símtal áðan þar sem okkur var boðið í fermingarveislu til Irmu stjúpfrænku, en hún býr líka í Noregi ásamt mömmu sinni og stjúppabba, en það er hann Ingi móðurbróðir minn. Við höfum ekkert heimsótt þau hér úti, en nú er alldeilis tækifærið til þess. Amma í Hveró kemur víst líka, svo það verður gaman að sjá hana líka. Þetta er sem sagt 30. maí. Æ, svo er bara fínt að fara í smá ferðalag, gerum nú ekki mikið af því.

En já, við ætlum að reyna að skreppa á torfæruna sem verður haldin hér 22. og 23. maí. Hjalti á afmæli 22. maí, svo ég reikna með að við reynum þá að fara 23. maí. Hún er haldin á stað sem heitir Vormsund og það koma auðvitað íslenskir keppendur, annars myndi ég ekki nenna að fara, haha. En þetta verður örugglega gaman :D

mánudagur, maí 03, 2004

Ég er mikið betri í fætinum. Er aðeins farin að stíga í hann og það virðist vera ok. Er samt með smá verkjaseyðing, eiginlega einhverja svona þreytuverki. Ég ætla samt ekkert að vera að þramma mikið um, hef grun um að ég verði fljótt mjög þreytt í honum. En ég er allavegana ánægð að þetta virðist ætla að lagast fljótt. Börnin vorkenna mér agalega, Hjalti er alltaf að klappa fætinum mínum og knúsa mig. Algjör rúsína. Elísa gaf mér voða fínt bréf þar sem hún skrifar hvað hún vorkenni mér mikið og Arna er voða hugulsöm og réttir mömmu sinni það sem hún biður um ;) Samt finnst henni alveg sjálfsagt að ég eigi að koma með djús handa henni, skeina hana o.s.frv. hehe. Æ þau eru bara svoddan krútt.

Annars leiðist mér eiginlega. Ég þarf ekki að fara að vinna fyrr en á fimmtudagskvöld, eða sko kvöldvakt. Er nú voða fegin að þurfa ekkert að mæta fyrr, gefur mér tíma til að jafna mig. En þetta er samt leiðinlegt. Jæja, kannski kemst ég eitthvað út fyrir hússins dyr á morgun.

sunnudagur, maí 02, 2004

Ég er hallærislegasta hjúkka í heimi!!!

Hvað haldiði að ég hafi gert á næturvaktinni s.l. nótt? Ég missteig mig svona hrottalega að ég þurfti að fá kollega minn til að keyra mig niður á bráðamóttöku þar sem ég var send í röntgen og læti. Fóturinn virðist sem betur fer ekki brotin, en ég er hrikalega bólgin og hef greinilega snúið mig illa, vona bara að liðböndin séu ekki slitin. Fóturinn er allur blár og bólginn og þetta var svo ógeðslega vont í nótt að ég hreinlega grenjaði af sársauka. Samt fannst mér sársaukinn minnsta málið því mér fannst eiginlega langverst að þurfa að sitja farlama í hjólastól niðri á slysó í hvítum hjúkkubúning með hjúkkunafnspjaldið framan á mér. Ekkert smá hallærisleg. Ég á bara ekki að vera í þessari aðstöðu, það er ÉG sem á að vera á bak við hjólastólinn, ekki í honum :Þ. En jæja, slysin gerast víst fljótt. Skil ekki hvernig ég fór að þessu.

Svo var ég náttúrulega að drepast úr verkjum ennþá þegar ég kom heim, fékk samt góðar stuðningsumbúðir og íspoka á bólguna. Tók svo bara verkjatöflur og lagði mig þegar ég kom heim. Ég gat nú ekki einu sinni keyrt bílinn heim, en hún Eva sem var með mér á vakt var svo yndisleg að keyra mig heim og keyra svo Bjögga til baka að sækja bílinn. En allavegana þegar ég vaknaði var ég bara alveg verkjalaus og fannst ég fær í flestan sjó. Gat meira að segja alveg stigið í fótinn og labbaði inn á klósett, vel hölt að vísu. En Adam var ekki lengi í Paradís, því um leið og ég var búin að taka nokkur skref þá blossaði sársaukinn upp aftur. Ég á greinilega EKKI að vera að reyna neitt á fótinn strax. Svo Bjöggi elska fór og reddaði hækjum á læknavaktinni og ég tók bara annan skammt af verkjatöflum sem eru greinilega að virka núna. En það er ekki séns að ég geri mér það aftur að reyna að stíga í fótinn strax.

Ég get auðvitað ekki farið á næturvakt í nótt, fékk strax vottorð frá lækninum á bráðamóttökunni upp á það. OH!!! ER HÆGT AÐ VERA SVONA MIKILL KLAUFI??? Liðið á bráðamóttökunni hélt nú bara að við værum að grínast fyrst þegar Eva hringdi og sagði að ein hjúkkan sem væri með henni á vakt hefði misstigið sig illa og þyrfti að koma niður í tékk. En þetta var því miður ekkert grín :/ Vona bara að þetta verði fljótt að jafna sig, ferlegt að vera svona farlama :(