laugardagur, apríl 10, 2004

Ein næturvakt að baki, tvær eftir. Auðvitað var þetta fín vakt með þessu eðalfólki ;) Alltaf gaman að vinna með þeim. Annars var nú bara frekar rólegt í nótt, vorum eiginlega bara hissa að það gerðist ekki meira, því við erum með þrjá dauðvona sjúklinga sem geta farið hvenær sem er.

Nú þarf ég að finna einhverja spólu til að taka með í vinnuna á eftir, ég er nefninlega kvikmyndameistarinn á næturvöktunum ;) Við horfðum á In the Name of the Father í gær, og þar sem þetta er rúmlega tveggja tíma löng mynd segir það vel til um hversu rólegt það var hjá okkur. Reyndar tók það okkur um 4 tíma að horfa á hana, hehe, alltaf að setja á pásu til að svara bjöllum og svona, en samt ;) Jæja, best að fara að grafa í myndabandahrúgunni okkar ;)

föstudagur, apríl 09, 2004

Og enn er blessuð blíða. Klukkan er rétt að verða hálftólf og það er strax kominn 11 stiga hiti... og samt er pínu skýjað. Verður örugglega yndislegur dagur. Það væri gaman að skreppa í göngutúr á eftir, eða bíltúr eitthvert út í sveit jafnvel. Allavegana fara eitthvað út. Svo er ég að fara á næturvakt á eftir, það verður bara ágætt, er að vinna með svo frábæru fólki. Það verða ég - hjúkkan frá Íslandi, Agita - hjúkkan frá Lettlandi, og Stig - hjúkkan frá Svíþjóð... sem sagt verður þetta alþjóðlega vaktin í nótt ;) Við erum svo að vinna saman alla helgina á næturvöktum, það verður stuð ;)

fimmtudagur, apríl 08, 2004

Börnin mín eru sæt og góð ;)

Hjalti pjakkur er svo fyndinn stundum. Hann er alltaf að bæta við orðum og er aðeins farinn að skella saman orðum í tveggja orða setningar. Mér finnst ekkert smá krúttlegt að heyra hann tala norsku, hahaha. Nú er nýjasta setningin "lukke døra". Svo keypti ég myndasögublöð handa stelpunum í gær og harðspjaldabók handa Hjalta. En Hjalti var sko ekki alveg sáttur við þetta, því hann vildi svona "Blumm" eins og Arna. Arna fékk nefninlega Bangsímonblað, en Bangsímon heitir Ole Brumm á norsku. Svo Hjalti varð bara ferlega sár og benti á blaðið hennar Örnu og sagði "Blumm" eða "Bðumm". Hann varð svo voða sáttur þegar við fengum blaðið lánað og skoðuðum það saman ;)

Nú svo skrapp ég í bíó með stelpurnar áðan að sjá Pétur Pan. Þetta er bara í annað skiptið sem við förum með Örnu í bíó. Henni fannst nú svolítil læti og hélt þá bara fyrir eyrun, en fannst þetta alveg svakalega gaman og var alveg upprifin þegar við komum út ;) Mikið fjör. Við löbbuðum bara niður í bæ og heim aftur, enda frábært veður og hitamælirinn í miðbænum sýndi 16 stiga hita :D

miðvikudagur, apríl 07, 2004

Ég og mínar orðapælingar. Menning annarra þjóða hefur alltaf heillað mig og ég var að rifja upp það eru til frumstæðir þjóðflokkar, man nú ekkert hvar, þar sem orð fyrir stríð þekkist bara ekki. Þetta er bara svo friðsælt fólk að það hefur ekki einu sinni hugtak fyrir stríð. Eins þá er hjá sumum þjóðflokkum engin fortíð og engin framtíð, þau lifa bara í núinu, og fortíð og framtíð skipta ekki máli. Merkilegt hvernig fólk upplifir heiminn mismunandi.

Og svo þetta með liti. Við höfum náttúrulega rosa marga liti, en þó höfum við ekki nöfn yfir eins mörg litabrigði og þekkist á enskri tungu: Magenta, fuchsia, orchid - þetta eru allt bara bleikir litir hjá okkur, kannski myndum við segja dökkbleikt eða jafnvel fjólubleikt til að lýsa litunum betur. En samt er þetta bara bleikt. Indigo, navy - þetta eru bara mismunandi bláir litir. Teal, lime, olive, chartreuse - grænir litir. Jú við myndum kannski segja mosagrænn, ljósgrænn eða eitthvað þannig, en samt bara grænn. Engin sérstök heiti á þessum litabrigðum. Aqua, cyan, turquoise - við höfum ekki einu sinni sérheiti á þessum litahóp, köllum þetta bara grænblátt. Eins með appelsínugulan lit. Kallast orange á ensku, en við flokkum þetta bara sem einn af gulu litunum. Ég gæti sko nefnt fullt af öðrum litum hér, nenni því bara ekki ;)

En svo eru til tungumál þar sem er ekkert verið að flækja þessi mál. Sum tungumál hafa bara dökkan og ljósan lit, litir eru sem sagt annað hvort bara dökkir eða ljósir. Dökkir litir eru m.a. blár og grænn, og ljósir eru m.a. gulur og rauður. Svona skipta þeir þessu litakerfi, en þetta kallast tveggja lita kerfi. Önnur tungumál hafa þriggja lita kerfi. Þá hafa þau dökkan, ljósan og rauðan. Ef tungumál hefur þriggja lita kerfum þekkist ekki að þriðji liturinn sé einhver annar en rauður. Þetta er svolítið merkilegt. Ef tungumálin hafa litakefi með fleiri litum þá bætast við litir eftir ákveðnu systemi, þ.e. alltaf sömu litirnir fyrst. Auðvitað sér fólkið sem talar þessi tungumál samt fleiri liti, alveg eins og við sjáum mun á litabrigðum þó við höfum ekki nafn yfir þau öll. Eins má spá í að við sjáum bleikan og rauðan sem tvo mismunandi liti, en í raun er bleikur bara ljósrauður, rétt eins og við sjáum mun á dökkbláum og ljósbláum ;)

Og fleiri pælingar um tungumál. Það er líka til þjóðflokkur þar sem hugtökin, hægri og vinstri, fyrir framan og fyrir aftan, þekkjast ekki. Fólkið miðar bara alltaf við höfuðáttirnar fjórar, þ.e. norður, suður, austur og vestur og talar um staðsetninguna út frá því. T.d. þá myndu þeir ekki segja að Siggi stæði við hliðina á Magga, heldur að Siggi væri fyrir norðan/sunnan/austan eða vestan við Magga, allt eftir því hvernig þeir eru staðsettir ;) Eiginlega svolítið sniðugt því þetta fólk er greinilega alltaf með áttirnar á hreinu og hugsar alveg sjálfkrafa um staðsetningu út frá áttum. Bara er alveg jafn eðlilegt fyrir þeim að hugsa um þetta þannig, eins og það er fyrir okkur að hugsa um að Siggi sé við hliðina á Magga.

Já, mér finnst gaman að spá í þetta :D

Við skruppum til Svíþjóðar að versla áðan, eða skruppum er nú ekki alveg rétta orðið. Vorum föst í bílaröð í svona 40-50 mínútur, haha, allir sko að versla fyrir páskana. Við vorum engin undantekning. Ágætt að gera svona stórinnkaup reglulega, og auðvitað miklu ódýrara en í Noregi. En við vorum fljót á leiðinni heim, og þá var sko komin enn meiri röð í áttina að Svínasundi. Svo ætlum við bara að elda góðan mat í kvöld og hafa það næs :D

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Mér finnst alltaf svolítið gaman að spá í uppruna orða. T.d. orðið kerling sem margir leggja neikvæða merkingu í. Á sænsku er orðið yfir kerlingu käring og hefur einnig neikvæða merkingu þar. En þetta orð er afskaplega fallegt þegar maður spáir í uppruna þess. Kär er náttúrulega komið úr orðinu kärlighet sem merkir ást eða kærleikur, og -ing er smækkunarending, sem gerir orðið svona krúttlegra ;) Ég hugsa að kerling geti alveg átt sér svipaðan uppruna. Spurning hvort ker- sé ekki bara komið úr kærlighed (æ á dönsku/norsku og ä á sænsku er nefninlega borið fram mjög svipað og íslenska e-ið, samt meira svona mitt á milli a og e), eða bara orðinu kærleikur. -ling er allavegana smækkunarending alveg eins og -ing ;) Þannig að í raun er þá kerling afskaplega fallegt orð og lýsir eiginlega ást og væntumþykju eiginmanns í garð kerlingunnar sinnar ;D

Var að spjalla við vinkonu mína um fordóma, t.d. gagnvart lituðu fólki. Btw., afhverju er það kallað litað fólk? Er ég þá litlaus? En þessi vinkona mín á barn með lituðum manni og hefur sko upplifað sinn skerf að fordómum frá íslensku fólki gagnvart barninu, og henni sjálfri fyrir að eiga litað barn. Og það sem er skerí er að oft er það fullorðna fólkið sem er langverst. Ég á líka vinkonu sem er blönduð, á litaðan pabba. Hún hefur svo sannarlega líka upplifað svona fordóma. Manni bara bregður í brún þegar maður heyrir frá þessum konum hvað fólk hefur virkilega vogað að setja út úr sér, eða hvernig það hefur hagað sér.

En er maður fordómalaus sjálfur? Örugglega ekki alveg. Ég var t.d. að horfa á mynd í sjónvarpinu um daginn, man ekki hvað hún heitir, en hún var um blökkumann í Suðurríkjum Bandaríkjanna, sem skaut tvo hvíta menn til bana eftir að þeir höfðu rænt, nauðgað og misþyrmt 10 ára dóttur hans. Þetta fjallaði síðan um baráttu lögfræðings, sem var hvítur, til að fá manninn sýknaðan á grundvelli tímabundins brjálæðis, því ef hann væri fundinn sekur fengi hann dauðadóm. Hvar er réttlætið í því? En allavegana, auðvitað var maður alveg hlynntur rökum saksóknara um að fólk mætti ekki taka lögin í eigin hendur og allt það, en það sem verjandinn var að reyna að sýna fram á var hvernig áhrif þessi atburður hafði haft á föðurinn og þannig fengið hann til að bregðast við á þennan hátt. Ekki virtist þetta nú ætla að fara vel fyrir blökkumanninum, allir kviðdómendur hvítir og þetta var n.b. í Suðurríkjunum.

En í lokaávarpi verjandans bað hann kviðdómendur að loka augunum og sjá fyrir sér atburðina sem hann myndi lýsa. Síðan lýsti hann í miklum smáatriðum og á áhrifaríkan hátt þessum örlagaríka degi þegar litlu stúlkunni var nauðgað. Hann lýsti því þegar hún var á leið heim, léttklædd á fögrum sólskinsdegi þegar tveir menn rifu hana inn í bíl til sín og keyrðu með hana á afvikinn stað. Hann lýsti því þegar hún var bundin við tré, rifin af henni fötin og þessar litlu 10 ára stúlku nauðgað hrottalega af báðum mönnunum til skiptis, hvernig þeir fóru á hana með þvílíku offorsi að móðurlíf hennar skaddaðist fyrir lífstíð þannig að hún myndi aldrei sjálf getað eignast börn. Hann lýsti því hvernig mennirnir héldu áfram að niðurlægja litlu stúlkuna með því að hrækja á hana og míga yfir hana. Hann lýsti því hvernig þeir reyndu að hengja hana með reipi fest yfir grein, hvernig reipið strekktist að hálsi hennar og hún að því komin að kafna, þegar greinin brast og hún féll niður á jörðina aftur. Hann lýsti því hvernig henni var hent aftur inn í bílinn, keyrt með hana að gili þar sem henni var kastað niður til þess að bíða dauða síns. Hann lýsti því hvernig hún lá þarna, sundurtætt og barin eftir ofbeldið sem hún hafði orðið fyrir, útötuð í sæði þeirra og þvagi. Hann bað kviðdómendur að sjá þetta vel fyrir sér... og bað þá svo að ímynda sér að þessi litla stúlka væri hvít.

Maður nefninlega sá alla þessa atburðarás fyrir sér og tárin streymdu niður kinnarnar hjá manni þegar hann lýsti þessu öllu. En þegar hann lét út úr sér síðustu setninguna og maður sá fyrir sér litla hvíta stúlku, þá verð ég að viðurkenna að ég upplifði sterkari tilfinningar, og einnig var þetta eins og kjaftshögg, því HVERSVEGNA upplifði ég sterkari tilfinningar og hafði enn meiri samúð með stúlkunni þegar ég ímyndaði mér hana hvíta? Ég vil reyndar meina að þetta séu ekki endilega fordómar hjá mér, ég vil meina að þetta tengist frekar því að ég skapi meiri tengingu við hvítt barn þar sem það minnir mig meira á mín eigin börn. Ég man þegar Band Aid dæmið stóð yfir og sýndar voru myndir af hungruðum svörtum börnum og maður sárvorkenndi þeim. Svo sagði mamma við mig: Lilja, ímyndaðu þér að þetta væri Heiða María. En Heiða María er litla systir mín sem var u.þ.b. 3-4 ára þegar þetta var. Og um leið og ég ímyndaði mér þetta fann ég enn meira til með börnunum og upplifði miklu sterkari tilfinningar.

En það er held ég gott og hollt að velta þessum hlutum fyrir sér og skoða tilfinningar sínar og mögulega fordóma. Velta fyrir sér hvers vegna manni finnst hitt og þetta. Og það er ágætt að ímynda sér hlutina svolítið nær sér til að virkilega geta betur sett sig í spor annarra og reyna að skilja þá.

mánudagur, apríl 05, 2004

Sybbin... það er ég. Það er svo sem ekkert nýtt ;) Ég sat með kallinum í nótt og horfði á "In the name of the father". Langt síðan ég sá hana síðast, en þetta er náttúrulega rosa góð mynd. Annars er ég búin að skutlast með litlu krakkana í leikskólann. Elísa er í páskafríi, en ég fer að vinna á kvöldvakt á eftir. Ætla að leggja mig smá fyrst. Dobbla kannski Elísu til að kúrast með mér og horfa á einhverja skemmtilega mynd. Það er svo notalegt. Þegar hún var lítil gerðum við þetta oft, þá horfðum við yfirleitt á einhverjar Disneymyndir, ég lá í sófanum og hún sat á bak við hnésbæturnar á mér. Þetta kallaði hún að sitja í holunni ;) Hún gerir þetta stundum enn og það sem er svo sniðugt er að núna er Arna eiginlega tekin við og situr svona í holunni þegar við eru að kúrast og horfa á einhverjar skemmtilegar barnamyndir ;)

Hmm... en Elísa nennir víst ekki að horfa með mér á mynd núna, hún ætlar að drífa sig til Karine vinkonu sinnar. Ég er reyndar voða ánægð hvað Elísa vill helst vera úti að leika. Hún eyðir samt smá tíma í tölvunni og föndrar við bloggið sitt ;) Nú var hún að bæta við Britney Spears síðu en var ferlega svekkt því eitthvað af myndunum kom ekki inn. Ég kíki á þetta við tækifæri, en síðan hennar er hér Elísubloggið ef þið viljið skoða. Henni finnst voða gaman að fá komment og/eða færslu í gestabókina ;)

sunnudagur, apríl 04, 2004

Aumingja kallinn minn, liggur bara þunnur inni í rúmi (tíhí). Annars veit maður nú alveg að það er ekkert gaman að vera þunnur. Ég er hins vegar bara mjög hress, búin að laga ágætlega til, þreif ísskápinn og eldavélina í gær og er svona að dunda mér við að grynnka á þvottahrúgunni, þessari hreinu sko ;)

Svo er barasta HELLIDEMBA úti núna. Fínt að fá smá vorrigningu til að hreinsa burt veturinn og koma gróðrinum af stað ;)

Það er búið að bjóða okkur í þrítugsafmæli um þarnæstu helgi hjá Mumma. Við erum meira að segja líklegast búin að fá pössun fyrir börnin svo við hjónakornin getur skroppið bara tvö og sleppt af okkur beislinu ;) Það verður nú gaman, ekki oft sem við höfum tækifæri til þess.

Aldrei þessu vant þá er kallinn farinn á djammið og ég sit heima, en ekki öfugt, hehehe. Hann hefur sko bara gott af því að skreppa svona smá, gerir allt of lítið af því. Tveir kunningjar hans, Siggi og Hjalti, komu hér yfir og þeir sátu hér í smá stund og fengu sér í glas... og hlustuðu á BUBBA (Íslendingar sko, hvað annað). Bubbi er nú ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá mér, en ég lét mig hafa það :Þ Og núna eru strákarnir farnir á pöbb og ég sit bara ein hér í rólegheitum. Börnin sofandi sko. Annars veit ég nú ekkert hvað ég á að gera svona alein, hahaha, hangi hvort sem er bara í tölvunni eins og venjulega. Nei, kannski ég finni mér einhverja væmna kellingamynd og breiði úr mér í sófanum og glápi og grenja smá, svona eitthvað stelpudót ;)