laugardagur, maí 22, 2004

Ég á stóran strák :D

Húrra húrra, þetta var skemmtilegur dagur. Hjalti varð tveggja ára og auðvitað var veisla. Fékk Sísí og fjölskyldu í heimsókn, það var alveg frábært að hitta hana loksins, og þau öll. Ketil og Arna urðu mestu mátar og léku sér voða vel saman. Svo komu Palli og Helga með börnin sín þrjú, sú yngsta er á sama ári og Hjalti nema bara fædd í október, þannig að það var svaka stuð hér. Gaman að fá þau líka, þetta er í annað skiptið á tveimur árum sem þau kíkja í heimsókn, haha. Og svo býr maður rétt hjá þeim. Hrikalega er maður lélegur að kíkja í heimsókn og bjóða í heimsókn. Karin og hennar fjölskylda komust því miður ekki þar sem Sunniva litla var veik með 40 stiga hita. En pabbi hennar skaust samt hingað með pakka handa Hjalta, voða almennilegt af þeim. Þau verða bara að kíkja í heimsókn seinna.

En Hjalti fékk þennan fína steypubíl, með kubbum innan í, frá Ketil, flottan bíl frá Elísu og Örnu, glæsilegan stóran traktor með kerru frá Sunnivu og skemmtilegt sandkassadót frá Birgi, Láru og Maríu. Hann var sko alsæll með allt þetta dót, fullt af "stráka"dóti :D Svo var hann auðvitað búinn að fá þríhjól frá okkur pabba hans.

Nú eru allir frekar þreyttir. Hjalti er ekkert búinn að taka sér síðdegisblund í dag og er ansi sybbinn, en það tekur því bara ekki að fara að láta hann leggja sig núna, klukkan 18. Arna er að horfa á Dinosaur inni í herbergi hjá Elísu og Elísa er að tala við Karine á MSN ;)

fimmtudagur, maí 20, 2004

Leirburður ;)

Hausverkur og hálsa-ó
hérna mig að angra er.
Þvottahrúgan verri þó
þykir satt að segja mér.

Húsmóðir ég harla er,
heimilið er algjört flag.
Veisluhöld þó verða hér
vonandi á laugardag.

Yngsti litli anginn minn
afmæli nú bráðum á.
Sæti litli strákurinn
skal víst sína veislu fá.

Að taka til því tel ég best,
tuskan verður vopn mitt nú.
Þá get ég fengið margan gest
og glöð mun verða þessi frú.

Ekki hef ég nú mikla trú á stjörnuspeki, en eitt er það sem ég tek samt eftir trekk í trekk. Sporðdrekakonur eru með mikla skó- og undirfataáráttu. Ég þekki örugglega fjórar skvísur í sporðdrekamerkinu sem allar eru með þessa áráttu og nú var ég að uppgötva að systir mín, sem er sporðdreki, fellur líka í þennan hóp, allavegana hvað varðar skóna. Kæmi mér ekkert á óvart ef hún væri með undirfatadellu líka, þarf að spyrja hana að því.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Jæja og vá!

Það var svo sannarlega þjóðhátíðardagur Norðmanna í gær. Ég hef aldrei upplifað hann áður, var á Íslandi með Hjalta í fyrra. Svo var ég svo heppin að vera á næturvakt aðfaranótt gærdagsins þannig að ég svaf bara ekki neitt eftir hana, enginn tími til þess. Kom heim um hálfátta og þá var bara að drífa börnin á fætur og gefa þeim að borða. Við vorum svo mætt á leikskólann hjá Örnu og Hjalta um klukkan níu, og þar var svo gengin smá skrúðganga rétt fyrir hálftíu. Elísa nennti ekki með og beið heima.

Næst á dagskrá var stóra aðalskrúðgangan í bænum. Ég hélt að það væru bara skólakrakkarnir sem gengu í henni, en nei það voru sko alls konar hópar og klúbbar líka. Við gerðum þau mistök að keyra Elísu niður að skrúðgöngu og lentum náttúrulega í svaka umferð og hún varð aðeins of sein. Átti að vera mætt kortér fyrir 12 en var komin svona rétt fyrir 12. Það gerði samt ekkert til því hennar skóli var síðastur í skrúðgöngunni.

En allavegana þegar Elísa var komin á sinn stað þá fórum við hin og stilltum okkur upp niðri í bæ til að geta horft á skrúðgönguna. Ég var nú bara alveg agndofa, þetta er ekkert smá skrúðganga og flottir hópar. Þeim var greinilega raðað eftir bæjarhlutum, fyrst lúðrasveit skólans, svo skólinn, síðan einhverjir hópar og klúbbar, svo næsta lúðrasveit o.s.frv.

Eftir að við vorum búin að horfa á skrúðgönguna, sem tók nú bara KLUKKUTÍMA að fara fram hjá okkur, þá fórum ég, Bjöggi, Arna Valdís og Hjalti Sævar og fengum okkur pylsur og kók og ís. Svo keyptum við blöðrur handa grislingunum. Elísa Auður hélt áfram með skrúðgöngunni og hennar skóli gekk svo að skólanum hennar, en þar voru einhverjar uppákomur á skólalóðinni. Við urðum nú að fara heim með Hjalta og leyfa honum að leggja sig, en ég og Arna röltum upp að skólanum hennar Elísu og vorum smá stund þar. Veiddum dót, prófuðum lukkuhjólið, köstuðum pílum o.fl. ;)

Svo hálffimm þá fór Bjöggi með krakkana upp að leikskóla Örnu og Hjalta, en þar voru fleiri uppákomur. Ég var hins vegar orðin hálftitrandi af þreytu og lagði mig loks um fimmleytið og svaf í tvo tíma. Síðan um kvöldið þegar öll börn voru sofnuð lá ég úrvinda í sófanum og horfði á "The Green Mile" með kallinum. Ég átti eiginlega að fara að vinna í morgun, en Arna vaknaði í nótt með hita, hósta og hausverk, svo ég ákvað að vera bara heima með hana í dag. Var eiginlega mjög fegin því ég var sjálf með hálsbólgu og frekar slöpp.

En allavegana var þetta geggjaður dagur í gær og endilega kíkið á myndirnar hér.

sunnudagur, maí 16, 2004

Eurovision er búin og Úkraína vann. Hrikalega var þetta annars leiðinleg keppni eitthvað, ekki eitt einasta lag sem skaraði fram úr. Ég man bara ekki eftir einu einasta, nema svo sem vinningslagið hljómar enn smá í hausnum á mér, bara af því að það VAR verið að spila það rétt áðan. Jónsi stóð sig mjög vel, en lagið er samt þannig að það fellur alveg í fjöldann. Allavegana þá var ég ekki að fíla þessi lög í þessari keppni. Frekar svekkjandi.

Börnin fengu auðvitað að horfa á þetta. Arna litla gafst upp fyrir klukkan tíu, hún er bara þannig litla skottan, biður einfaldlega um að fá að fara að sofa þegar hún verður þreytt. Hún þarf sinn svefn. Ég fór með Hjalta inn í rúm í hléinu og Elísa sofnaði nú yfir stigagjöfinni en ég vakti hana til að leyfa henni að heyra vinningslagið, og hún er steinsofnuð inni í rúmi núna ;) Og munið sko að klukkan er tveimur tímum á undan hér í Noregi miðað við á Íslandi.