laugardagur, júní 26, 2004

Útbrot

Jahérna hér. Í morgun vaknaði ég með fáránlega dofna efri vör, og smá dofin í neðri, svona eins og þegar deyfing er að fara úr. Svo var ég með upphleypt útbrot á bakinu, öðrum úlnliðnum og framan á ökklunum. Og svo klæjar mig þvílíkt í þetta. Svo hafa útbrotin bara smám saman aukist í dag, er komin með þetta upp að hnjám og í báðar olnbogabæturnar, svo til allt bakið og á axlirnar, á bringunni og á hálsinn. Ein hjúkkuvinkonan mín (íslensk) sem vinnur á bráðamótökunni á Lansanum ráðlagði mér að fara til læknis því ég þyrfti líklega eitthvað við þessu. Ég hringdi svo á læknavaktina og þau vildu bara fá mig niðureftir sem fyrst að skoða þetta.

Ég dreif mig því niðureftir, fékk strax eina ofnæmistöflu og beið svo og beið eftir að fá að hitta lækni. Þegar meira en klukkutími var liðinn leyfði hjúkkan mér að fara heim, því taflan var greinilega farin að virka, útbrotin að dofna og ég ekkert að versna. Er enn svolítið dofin í vörunum, en samt skárri. Fékk bara aðra töflu með mér heim til að taka á morgun. Svo hef ég auðvitað samband ef ég fer eitthvað að versna aftur. Losnaði allavegana við að borga, hehe.

Ég er búin að spá og spekulera hvort það sé eitthvað sem gæti hafa valdið þessu, en ég finn ekkert. Ekkert nýtt sem ég hef prófað, hvorki matur, föt né lyf. En ég hef engin einkenni frá öndunarfærunum svo ekki virðist þetta vera neitt ofnæmislost allavegana ;) Ég hef sko aldrei verið með neitt ofnæmi, en hún Anna María ofurhjúkkan mín segir að þetta geti komið án nokkurrar skýringar stundum.

fimmtudagur, júní 24, 2004

Loksins smá almennilegt frí :D

Er sko komin í þriggja daga helgarfrí og þarf þokkalega á því að halda. Það var brjálað að gera í vinnunni í gær og brjálað í dag. Ég var eini hjúkrunarfræðingurinn í minni grúppu, því hin var veik og ekki tókst að fá neinn í afleysingar. Venjulega erum við tveir hjúkrunarfræðingar á dagvakt með svona 8-10 sjúklinga, sem sagt 4-8 á mann. En í dag var ég ein með 10 sjúklinga og það var bara þvílíkt mikið að gera með þá alla. Held að ég hafi bara aldrei upplifað svona dag áður í vinnunni. En ég er náttúrulega svo klár að ég náði að ganga frá öllu því mikilvægasta áður en kvöldvaktin tók við :Þ

Hér er grenjandi rigning, hjólaði í og úr vinnunni og ég er svoleiðis rennandi blaut. En nú er ég komin heim og get slappað af, jíha :D

þriðjudagur, júní 22, 2004

Þreytt!

Amm, ég er freeeekar þreytt. Ég er búin að vera að vinna svo mikið. Þó svo ég hafi verið í fríi um helgina er ég bara næstum búin að vera að vinna stanslaust vikurnar tvær á undan, og svo er ég að vinna fjóra daga í röð í þessari viku. Hlakka ekkert smá til að fá frí á föstudaginn og um helgina. Þá get ég líka loks tekið íbúðina í gegn. Ég bara hef svo litla orku í að gera eitthvað þegar ég hef verið að vinna og svo með krakkana hangandi í mér. Æ þau eru svo miklar dúllur. Annars er hún Elísa eiginlega flutt að heiman. Hún vældi það út hjá Bjögga að fá að gista hjá Renate aftur í nótt, gisti þar sko síðustu nótt. Renate er nefninlega að fara eitthvað burt í sumarfrí á morgun og þess vegna bara URÐU þær að fá að vera saman þessa síðustu tvo daga. Æ, það er samt svo gaman hjá henni og hún skemmtir sér konunglega :D Og ef ég á að vera alveg hreinskilin þá er líka ágætt að hafa einungis tvö börn í stað þriggja í smá stund, sérstaklega þegar ég er svona mikið að vinna. Vona að það verði svo gott veður um helgina og að við getum gert eitthvað skemmtilegt. Elísa er komin í sumarfrí núna, það var síðasti skóladagurinn í dag.

Jæja, ég ætla aðeins að skoða netið, aðallega Barnaland, enda er ég algjör fíkill. Ég er á kvöldvakt á morgun, er ferlega fegin að þurfa ekki að vakna eldsnemma enn einn daginn. Ég er engin A-manneskja, hehe. Virka miklu betur á kvöldin.

sunnudagur, júní 20, 2004

Óhræsis mígreni

Sem betur fer hrjáir það ekki mig, en elsku kallinn minn liggur alveg ónýtur inni í rúmi að drepast úr verkjum og vanlíðan :( Fékk sér einn kóksopa og kastaði upp maganum í staðin. Ég opnaði hurðina þarna inn og hann bað mig vinsamlegast að loka henni því hann þyldi ekki matarlyktina. Ég var bara ekkert að elda, það var fólkið á neðri hæðinni. Svo voru allar verkjatöflur búnar, en stundum er nú gott að vera hjúkka. Ég brunaði niður á deild og fékk fyrir hann verkjastíla og ógleðistillandi, vonandi hjálpar það smá svo hann geti sofið aðeins. Svefninn virkar oftast best á þetta. Aumingja kallinn :( Ég komst ekkert í leikfimi í dag því ekki gat ég skilið börnin eftir hjá pabba sínum. Kannski ég komist út að labba í kvöld þegar þau eru sofnuð.

Elísa er loks komin heim. Hún bað nú um að fá að gista eina nótt enn, en þá sagði ég nei. Fannst að hún gæti nú aðeins verið heima hjá sér ;)