laugardagur, júlí 10, 2004

Ég er BRJÁLUÐ!!!

Það komu hér menn frá Tollinum áðan og hreinlega bara klipptu af bílnum. Þeir halda því fram að umskráningargjöldin hafi ekki verið greidd, en við greiddum þau í fokking SEPTEMBER Í FYRRA, rétt eftir að við keyptum bílinn. Greiddum í netbanka svo við erum ekki með kvittun liggjandi á lausu til að sýna þessum fíflum.

Bjöggi var að reyna að ræða við þessa helvítis kalla. Segir þeim að þetta hafi verið greitt og spyr hvort þeir geti ekki komið þá bara aftur eftir helgi þegar búið sé að tékka á þessu betur. Nei, það var sko ekki hægt, það væri ekki búið að greiða þessi gjöld síðan í APRÍL í fyrra. Og Bjöggi sagði þeim nú pent að hann hefði ekki keypt bílinn fyrr en í SEPTEMBER. "Já, eða september eða eitthvað" var þá svarið. Svo segir þessi tollkall að þar sem umskráningargjaldið hafi ekki verið greitt þá sé bíllinn enn á nafni fyrri eiganda. Og Bjöggi spyr þá hvernig í ósköpunum standi þá á því að hann sé búinn að fá rukkun fyrir bifreiðagjöld á SÍNU EIGIN nafni og sýndi þeim það. Nei, það eru bara MISTÖK, var svarið. Segir svo að þar sem ekki hafi verið greidd þessu umskráning þá séum við ekki búin að fá senda miða fyrir greiðslu á bifreiðagjöldunum (en það er svona miði sem maður fær til að líma á bílinn). Bjöggi segir þá að hann hafi nú einmitt verið að lesa um þetta og þar hafi verið tekið fram að síðasta hollið af þessum miðum sé ekki sent út fyrr en 2. ágúst, en tollfíflið sagði nú bara ekkert þá.

Svo spyr maðurinn minn hvort að þeir ætli þá að borga kostnað af óþægindum sem við verðum fyrir vegna þessa, svo sem leigubílakostnað og svona. "Nei, þú getur bara hjólað" var svarið. Þvílíkur dónaskapur og óliðlegheit. Og að gera þetta á LAUGARDEGi þegar ALLAR opinberar skrifstofur eru lokaðar og EKKI SÉNS að leysa þetta mál núna. Ég er að fara að vinna á næturvakt á eftir, krakkarnir boðnir í afmæli á morgun, börnin þurfa að komast á leikskóla á mánudagsmorguninn og kallinn þarf að mæta eldsnemma í vinnu... og ekki getum við notað bílinn. Ekki eru nú strætósamgöngurnar hér til að hrópa húrra fyrir. Ég kæmist t.d. aldrei með börnin í leikskóla og á réttum tíma í vinnuna með strætó ef ég væri á morgunvakt.

OOOOOOH, ég er bara svo ógeðslega reið og pirruð og brjáluð, og mest yfir að geta ekki einu sinni hringt í tollvesenið og rifið kjaft yfir þessu. Helvítis aumingjar bara!!!

fimmtudagur, júlí 08, 2004

Það styttist óðum :D

Bara 17 dagar í sumarfrí :D Jibbí skibbí! Þá verður brunað af stað til Danmerkur, tökum væntanlega allan daginn í að keyra... eða elsku kallinn minn fær víst að keyra þar sem ég er á næturvakt nóttina áður. Reikna með að sofa aðeins á leiðinni ;) Svo er ég nú búin að heimta að við stoppum aðeins í Lundi í Svíþjóð á leiðinni svo ég geti sýnt þeim æskuslóðIrnar. OMG ég fæ nú bara fiðring í magann að hugsa um að koma þangað aftur. Flutti frá Lundi til Íslands þegar ég var á 16. aldursári og fór svo reyndar út í heimsókn tveimur árum seinna. En síðan hef ég ekki komið þangað og það eru sem sagt 16 ár síðan ég var þarna síðast. VÁ!!! Nú fæ ég bráðum nostalgíukast :D

En já, svo liggur leiðin til Slagelse, sem er svona klukkutíma akstur frá Kaupmannahöfn, en þar býr frændfólk hans Bjögga. Þar fáum við gistingu um nóttina. Daginn eftir var svo planið að slæpast aðeins um í Köben, fara kannski í Tívolí eða Dýragarðinn, labba á Strikinu og versla kannski smá ;) Gistum síðan aftur hjá Slagelefjölskyldunni næstu nótt og leggjum svo snemma næsta dag af stað til Horsens að heimsækja Tídda og Daju :D Þá verður nú fenginn sér bjór á kvöldin, en við gistum hjá þeim tvær nætur. Ætlunin er að fara í Lególand með krakkana og svo bara hafa það gott og njóta tímans með góðum vinum. 29. júlí eiga kallinn minn og dóttir Tídda og Daju afmæli, svo ég reikna með smá afmælisveislu þá.

Síðan verðum við víst að leggja af stað aftur til Slagelse um kvöldið sama dag, þar sem við þurfum að vera mætt á Kastrup flugvöll snemma næsta morgun. Þá verður flogið með Flugleiðum beina leið til Íslands. Þá er verslunarmannahelgin að ganga í garð á Fróninu, en það verður nú ekkert fyllerí og djamm á okkur, heldur liggur leiðin upp í sveit með mömmu og pabba. Ætlum að njóta helgarinnar á Högnastöðum... en ég heimta nú að pabbi gefi mér bjór samt ;)

VÍÍÍÍÍÍÍÍÍ HVAÐ ÉG HLAKKA TIIIIIL!!!!!!!!!

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Blóðgjöf bjargar mannslífum


Var að lesa umræðu um blóðgjöf á Barnalandi. Vil bara nota tækifærið og hvetja alla til að drífa sig niður í Blóðbanka og gefa blóð. Það er alltaf skortur á blóði og Blóðbankinn er nánast aldrei með lágmarksbirgir af öllum blóðflokkum. Fólk gerir sér heldur oft ekki grein fyrir að blóð er ekki bara notað þegar slys verða heldur er þetta mjög mikið notað í allskonar aðgerðum þar sem fólk tapar blóði. Ein stór aðgerð getur t.d. auðveldlega tæmt upp birgðirnar í einum blóðflokki á skömmum tíma. Eins hafa sumir sjúkdóma sem krefjast þess að þeir fái blóðgjöf reglulega til að hreinlega virka í lífinu. Má þar t.d. nefna suma krabbameinssjúklinga og nýrnasjúklinga. Eftir erfiðar fæðingar og keisara getur þurft að gefa töluvert blóð o.s.frv.

Ef þú ert frískur einstaklingur, ekki á lyfjum, ekki undir kjörþyngd, ekki ólétt og ekki nýbúin að eignast barn (verður að líða ár frá barnsburði) þá skaltu endilega drífa þig niður í blóðbanka og kanna hvort þú megir gefa. Í fyrsta skiptið sem þú kemur er eingöngu tekið smá blóðsýni til að athuga með blóðrauðann, en gildi hans má ekki vera of lágt, járnbirgðir sem mega heldur ekki vera of lágar, og blóðið er síðan skimað fyrir lifrarbólgu B og C ásamt HIV veirunni. Að sjálfsögðu er blóðið síðan mótefnaskimað og blóðflokkað. Þú fyllir svo út heilsufarsskýrslu, sem er náttúrulega trúnaðarmál og ef þú uppfyllir öll skilyrði um blóðgjafa máttu koma aftur eftir tvær vikur og gefa blóð.

Blóðbankinn er opinn mánudaga og fimmtudaga 8:00-19:00, þriðjudaga og miðvikudaga 8:00-15:00 og föstudaga 8:00-12:00. Svo er blóðbankabíll sem keyrir um landið og safnar blóði á landsbyggðinni. Hann er í sumarfríi í júlí og ágúst, en fer aftur af stað í september.

Svo getið þið lesið ykkur meira til um Blóðbankann og starfsemi hans hér: Blóðbankinn.




Góðan daginn

Ég er svoddan snillingur. Ætlaði að svara einu kommentinu og eyddi því bara út í staðin. Mjög klár, dah! En H.L.Devil, þú misskildir mig alveg með þetta komment á síðunni þinni ;) Er reyndar búin að svara þér þar.

Jæja, ætli mér takist að taka til í dag? Ég þyrfti sko að taka mér taki og taka almennilega til. Takitakitak, Dóra Takefúsa, er hún fús til að taka til? Mig vantar þernu fyrst ég fæ engan töfrasprota... eða bara þræl, það er ódýrara. Ég bara skil ekki hvað varð af tuskugenunum í mínu tilfelli, bæði mamma og pabbi hafa þau. Þetta er greinilega ríkjandi gen og ég bara verið svo innilega óheppin að fá það EKKI í arf frá foreldrum mínum. Ekki hefur maðurinn minn þetta gen heldur svo það er augljóst að aumingja börnin okkar erfa það ekki.

Jæja, ég ætla að leggja mig til hádegis og fara svo að taka til. Bara VERÐ að gera eitthvað hérna.

þriðjudagur, júlí 06, 2004

Geeeeiiiiiiiiiisp!

Þetta er gallinn við að vera á næturvöktum, maður er svo lengi að snúa sólarhringnum almennilega við aftur. Sofnaði ekki fyrr en klukkan hálfsex í morgun og druslaðist svo á fætur hálfátta og dreif krakkana í leikskólann. Svo núna er ég hálfupptjúnnuð en samt syfjuð, veit ekki alveg hvað ég á að gera af mér. Sit bara og sörfa á netinu, skoða bloggið hjá barnalandsstelpunum og er eiginlega grútsyfjuð. Svo veit ég að ég legg mig á eftir, sef líklega til fjögur og sæki þá krakkana og geri ekkert meira í dag. Eins og það þyrfti nú að taka til hér. Hvernig var þetta með töfrasprotann? Er virkilega enginn sem veit hvar maður fær svona tól?

En þar sem ég er svo upptekin við að gera ekki neitt þá dundaði ég mér við að merkja við hvaða lönd ég hef heimsótt. Evrópukort dugar mér vel. Ég meira að segja merkti við Skotland sko til að láta þetta líta betur út, ég nebbla sko millilenti þar einu sinni á leiðinni til Íslands. Fór að vísu aldrei út úr vélinni, en hey, ég var þar SAMT!!! Hér er þetta fína kort:




create your personalized map of europe
or write about it on the open travel guide

sunnudagur, júlí 04, 2004

Lítil stúlka komin í heiminn

Hún Sísí sæta í Sarpsborg eignaðist litla stúlku í nótt, og það var svo sannarlega lítil stúlka því hún kom sex vikum fyrir tímann. Var um 8 merkur og 40 cm ;) Sísí er búin að vera inni á spítala undanfarna daga vegna meðgöngueitrunar, svo það var nú alveg viðbúið að barnið kæmi eitthvað fyrir tímann. En þetta gekk víst allt vel og bæði móður og barni heilsast prýðilega. Til hamingju Sísí og fjölskylda :D

Hugmyndasnauð og löt

Ég er nú meiri mamman. Ég er bara svo hugmyndasnauð og löt í dag að mér dettur ekkert í hug að gera nema hanga á netinu, og nenni engu hvort sem er. Krakkagreyjunum er bara plantað fyrir framan imbann, rétt nennti að elda handa þeim mat. Svo er ég að fara á næturvakt á eftir, síðasta næturvaktin í þessari lotu. Ef einhver er með hugmyndir um hvað ég get gert á morgun með þessum aumingjas krökkum sem voru svona óheppin að eignast mig sem mömmu, vinsamlegast látið mig vita. Ef sá hinn sami, eða einhver annar, veit hvar hægt er að fá töfrasprota sem hægt er að sveifla og galdra að allt verði hreint og fínt á heimilinu, þá endilega látið mig vita líka. Er alveg tilbúin að borga dágóða upphæð fyrir slíka græju.