laugardagur, september 11, 2004

Og hamingjan heldur áfram

Í kvöld náði ég að laga aðeins til inni á klósetti og í ganginum. Svei mér þá. Bjöggi gat líka vaskað upp í eldhúsinu og kláraði næstum allan uppvöskunarstaflann. Það var nefninlega svo lítið sem þurfti að gera í stofunni núna, híhí.

Elísa gistir aftur hjá Nikol, voða fjör hjá þeim, og litlu ungarnir eru að fara að sofa. Hjalti er reyndar smá lasinn, rauk upp í 40 stiga hita í dag, en er bara með í kringum 38 núna. En við hjónin ætlum að slappa af í rólegheitum og fínni stofu og horfa á the Shawshank Redemtion. Bjöggi hefur aldrei séð þessa mynd, ótrúlegt alveg. Það liggur við að ég öfundi hann að vera að fara að upplifa þessa mynd í fyrsta sinn ;D

föstudagur, september 10, 2004

20 mínútna kraftaverkið :D

Þetta er nú bara besta ráð sem ég hef fengið til að halda heimilinu við. Gerðum þetta fyrst á miðvikudagskvöldið. Örnu fannst þetta nú ekkert sniðugt til að byrja með, en hresstist svo aðeins og svo fannst krökkunum þetta bara svaka fjör. Stofan varð svona þokkalega í standi eftir þessa törn, sást allavegana í stofugólfið ;) Á fimmtudagskvöldið var ég á kvöldvakt, en Bjöggi og krakkarnir endurtóku þessa 20 mínútna tiltekt og þegar ég kom heim var bara ekki allt í rúst eins og venjulega. Verulega ánægjulegt. Svo í kvöld var eitthvað svo lítið að laga til í stofunni að maður gat farið að ráðast á önnur svæði líka. Auk þess var Arna orðin svo svakalega til í tuskið og fannst bara æðislega gaman að taka til. Henni fannst hún vera alveg ofboðslega dugleg, enda var hún það og henni var hrósað í hástert. Þetta er sko mikil breyting á henni, stelpunni sem hefur alltaf fundist alveg agalega erfitt að laga smá til. Hjalti átti nú til að gleyma sér svolítið við tiltektina, hahaha, enda svoddan kjáni. Elísa er ekki heima í kvöld, gistir hjá Nikol vinkonu sinni, svo hún var löglega afsökuð.

Silla mín, þú ert hreinlega bjargvætturinn minn fyrir að koma með þetta snilldarráð. Held að þú hafir bara bjargað heimilinu mínu :D Knús, knús og 1000 kossar til þín :D

miðvikudagur, september 08, 2004

Sjálfsskoðun og syndajátningar

Ég er búin að velta því svo lengi fyrir mér að ég er ekkert alveg sátt við sjálfa mig. Mér finnst ég ekki vera að nýta mig alla, ef svo má segja, finnst ég alls ekki nógu góð mamma og húsmóðir. Ég er allt of mikið bara eitthvað að slæpast og letingjast, í staðin fyrir að gera eitthvað uppbyggilegt. Þannig að nú er kominn tími á almennilega sjálfsskoðun, hverju vil ég breyta, hvaða takmarki vil ég ná og hvernig ætla ég að fara að því?

Í fyrsta lagi þá langar mig að vera virkari móðir. Þ.e. gera meira með krökkunum, lesa meira fyrir þau, spjalla meira við þau. Allt of oft þá eru þau nefninlega bara að dunda sér eitthvað, eða horfa á sjónvarpið, og ég hangi bara í tölvunni, eða hálfdotta í sófanum. Auðvitað er gott að þau geti dundað sér, en ég þyrfti að gera meira af því að taka bara þátt í leiknum með þeim. Líka að lesa meira fyrir þau og vera með þeim að teikna, lita og mála, leira o.s.frv. Það er margt hægt að gera sem maður gerir bara allt of sjaldan. Síðan þyrfti ég að eyða meira tíma í að bara spjalla við Elísu. Hún er á svo miklu flandri oftast, mikið úti að leika og svona. Það er auðvitað ágætt að hún er svona dugleg að leika sér og leiðist ekki. En ég held líka stundum að það sé ekki nógu mikil regla á henni. Ég held að ég ætti að setja niður smá tíma fyrir okkur tvær að tala saman, skikka hana bara fyrr inn á kvöldin stundum, eingöngu til að geta spjallað aðeins við hana. Hún hefur nefninlega gaman af að spjalla, bara við gefum okkur svo sjaldan tíma almennilegt spjall. Það er nefninlega týpískt að hún kemur inn seint og vill þá fara að spjalla og spjalla, en þá er náttúrulega kominn háttatími og enginn tími fyrir spjall. Og þá er ég ekki að meina eitthvað alvörugefið spjall, heldur bara spjall um heima og geima ;) Og svo annað, ég kannski sit upptekin í tölvunni þegar hún er til í að spjalla. Þarf hreinlega að forgangsraða betur. Mig langar ekkert að aðalminning barna minna um mig sé um mig upptekna í tölvunni eða hálfhrjótandi í sófanum.

Í öðru lagi langar mig að vera duglegari húsmóðir. Þetta heimili er yfirleitt allt í rúst og ekki gestahæft hér. Svo er nú líka stór ástæða fyrir að maður er ekki að dunda meira með krökkunum sú að það er bara ekkert pláss til þess. Þegar borðstofuborðið er fullt af drasli þá er lítið hægt að sitja við það og teikna og lita. Sama má segja um stofuborðið og eldhúsborðið. Þannig að það verður eiginlega að vera númer eitt að verð duglegari húsmóðir til að ég geti orðið virkari móðir. Silla vinkona benti mér á alveg brilliant ráð sem ég ætla að taka upp strax í dag. En það er að á hverju kvöldi þá eru teknar 20 mínútur í að taka til á fullu. Bara stilla skeiðklukku og svo hamast allir í 20 mínútur, hvorki meira né minna. Mér finnst þetta svo frábært. 20 mínútur er nefninlega svo stuttur tími og því auðvelt að vera á fullu allan þann tíma, og þar sem þetta er svona stuttur tími þá er auðvelt að fá alla í þetta. Hlakka til að sjá hvernig þetta reynist.

Í þriðja lagi þá er það megrunin mín, sem reyndar hefur nú verið í gangi í rúmlega 1 1/2 ár og ca 33 kg farin. Þannig að það gengur alveg ágætlega. Ég er samt í smá lægð núna og þarf að koma mér í gírinn aftur. Ég held reyndar að það komi eiginlega sjálfkrafa með hinu. Mér gengur alltaf best í átakinu mínu þegar það er góð rútína á heimilislífinu.

Til að ná þessum markmiðum þá er strax tvennt sem ég sé að ég þarf að laga sérstaklega. Annað þeirra er að fara að sofa á skikkanlegum tíma og sofa ekki fram eftir öllum degi þegar ég er í fríi. Bara nýta daginn og gera eitthvað á heimilinu. Hitt er að minnka tölvutímann, en tölvan er agalegur tímaþjófur og stundum hangir maður bara þarna af gömlum vana þó það sé svo sem ekkert sérstakt að gerast. Svo eru krakkagreyin að reyna að ná sambandi við mann og maður bara segir ha og já og hummar eitthvað því maður er svo upptekinn í tölvunni, glatað sko. En annars má nú nota þessa tölvu í svona kvolitítæm líka. Krakkarnir hafa nefninlega rosalega gaman af að sitja með mér og skoða t.d. skemmtilegar dýramyndir, eða bara myndir af öðrum krökkum. Eða þá Stubbasíðuna og Bubba byggi t.d. Svo tölvan er ekki alslæm ;) En, þarf samt að minnka tímann í henni.

Já, þar hafið þið það!

þriðjudagur, september 07, 2004

Töfrasproti óskast!

Reyni hér enn og aftur að óska eftir töfrasprota sem hægt er að sveifla og láta allt verða hreint og fínt á svipstundu. Mig bráðvantar svona tæki. Nú eða ef einhver veit hvar ég get komist í samband við Mary Poppins til að ráða hana sem barnfóstru. Hrikalega getur þetta drasl á heimilinu farið í taugarnar á mér og það versta er að það hvefur ekkert, sama hversu lengi ég bíð. Ætli maður verði ekki bara að gera þetta á gamla mátann as usual *andvarp*

sunnudagur, september 05, 2004

Sumir dagar sko :S

Það er bara eins og það sé fyrirfram ákveðið að sumir dagar verði alveg horror. Byrjaði í morgun á því að hrökkva upp við brjálað rifrildi og öskur hjá Örnu og Hjalta þegar ég var að reyna að sofa eftir næturvaktina. Svo voru stelpurnar með svo mikil læti, gargandi og hlaupandi, fara út og inn með látum og hávaða að ég gafst hreinlega upp á að reyna að sofa og fór bara á fætur. Náttúrulega illa sofin, þreytt og pirruð. Svo bara er dagurinn búinn að vera svona, Elísa í fýlu, Arna vælandi, Hjalti argur og Bjöggi hálflasinn. Og ég sem á afmæli!!!! Svo þoli ég ekki að vera svona blönk að geta ekki einu sinni bakað eina köku eða gert neitt til að brjóta aðeins upp daginn og gera okkur smá dagamun. Skruppum á smá rúnt áðan á fína bílnum og það var reyndar mjög gott. En svo tók sami pirringurinn við þegar við komum heim, ótrúlegt. Nú er reyndar Elísa farin út með Örnu að leika smá og allir búnir að ákveða að hætta pirringi og fýlu. Ég er að hugsa um að grafa djúpt í skápunum mínum og gá hvort ég finni mögulega eitthvað sem ég get galdrað eitthvað gúmolaði úr... efast samt um það. Spurning um að eyða bara síðustu krónunum í smá sætindi og horfa svo á einhverja skemmtilega mynd með krökkunum... sjáum til.

Ég á afmæli í dag :D

Ég á afmæli í dag
Ég á afmæli í dag
Ég á afmæli í daaaaaaag
Ég á afmæli í dag :D