laugardagur, júlí 17, 2004

Noregsbúar í tvö ár

Ég var að fatta að það eru akkurat tvö ár síðan ég, Elísa og Hjalti fluttum til Noregs. Þá voru Bjöggi og Arna búin að vera hér í þrjár vikur. Veðrið var nú aðeins öðruvísi þennan dag fyrir tveimur árum, þá var sko yfir 30 stiga hiti og geggjuð sól og blíða. Eiginlega allt of heitt fyrir minn smekk, og þannig var það upp á næstum hvern einasta dag það sumarið. Í dag var ekki nema um 22 stiga hiti og að hluta til skýjað. Sumarið í ár hefur alls ekki verið neitt sérstakt, held þetta sé hreinlega lélegasta sumarið hér í 20-30 ár. En ég ætla svo sem ekkert að kvarta, höfum alveg haft rosa fína daga líka ;) Það verður þá bara betra sumar næst. Svo erum við hvort sem er að fara til Íslands, vona bara að veðrið verði ágætt þar. Annars væri það alveg týpískt að á meðan við værum á Íslandi væri sólarlandaveður hér, hehehe. Það er reyndar spáð góðu veðri næstu daga. Ein vika í sumarfrí, jíha!!!

Skúra, skrúbba og bóna...

Ja, er reyndar ekki komin svo langt. Er bara enn að brjóta saman þvottafjallið mitt. Það er ekkert smá sem það tekur langan tíma. En ég ætla sko að vera búin að taka til fyrir morgundaginn og geta slappað af í hreinni íbúð á morgun. Þá skal ég frekar vera í alla nótt að taka til. Þetta mjakast nú. Kallinn er búinn að vera duglegur að taka eldhúsið í gegn, það var nú ágætis uppvasksstafli sem beið þar. Elísa og Renate vinkona hennar eru búnar að vera voða duglegar að fara út með Örnu og Hjalta, þvílíkur munur. Það er nú afskaplega lítið hægt að gera með Hjalta hangandi yfir sér ;) En nú ætla ég reyndar að elda smá mat áður en haldið verður áfram :D

föstudagur, júlí 16, 2004

Styttist í sumarfrí :D

Það er eins gott að fara að koma íbúðinni í stand og fara að skipuleggja hvað við þurfum að taka með okkur. Ég nenni sko ekki að koma heim úr sumarfríinu í eitthvað helvítis drasl hér. Svo bara verð ég að nota þessa frídaga núna um helgina og mánudaginn til að pakka, því ég vinn síðan alla daga fram að sumarfríi eftir það. Ji, hvað það er stutt í þetta :D Oh hvað það verður gaman. Svo er sumarið komið loksins, týpískt, þegar við erum að fara til Íslands, hahaha. En við verðum nú í Danmörku fyrst og það spáir líka góðu veðri þar.
 
Jæja, er að affrysta ísskápinn, best að fara að þrífa hann ;)

þriðjudagur, júlí 13, 2004

Nóg um að vera og gera

Jæja, ég mætti í vinnu klukkan hálfþrjú í gær, var á kvöldvakt. Svo um klukkan hálfsex hringdi ein sem átti að koma á næturvakt og sagðist ekki komast þar sem hún væri veik. Og þar sem ég var með ábyrgðina á deildinni í gær var það ég sem þurfti að redda aukamanneskju á næturvakt. Þið getið náttúrulega ímyndað ykkur hvað flestir eru til í að koma á næturvakt þegar maður hringir á þá svona 3-4 tímum áður en vaktin á að byrja. Svo er bara sumarfrístími, helmingurinn af starfsfólkinu í sumarfríi og hinir sem eru ekki í sumarfríi en samt ekki að vinna voru flestir eitthvað skroppnir út úr bænum, í smá bátasiglingur, höfðu ekki pössun o.s.frv. Þannig að það var bara nákvæmlega enginn sem vildi eða gat komið á næturvakt. Það endaði því með að ég varð bara a taka þessa næturvakt sjálf. Jú, ég hefði svo sem getað skipað einhverjum að taka næturvaktina, ég hef það vald þegar ég hef ábyrgðina á deildinni. Ég verð að vera með lágmarksmönnun hreinlega til að deildin sé örugg. En mig langaði bara ekkert til að skipa einhverjum að koma á vakt, sérstaklega þar sem þær einu sem höfðu möguleika til að koma (ekki farin út úr bænum eða með barnapíuvandamál) voru búnar að vinna mikið undanfarna daga, taka aukavaktir og svona. Svo ég vann bara sjálf áfram. Þetta var sem sagt rúmlega 16 tíma törn, ég stakk af 3 kortérum fyrr til geta keyrt kallinn á réttum tíma í vinnuna, annars hefði þetta verið nálægt 17 tíma törn.

Já og bíllinn, OMG sko. Ég held að það hljóti að vera kústskaft rekið upp í rassgatið á þessu liði sem starfar þarna, ótrúleg stífni. Bjöggi fór sem sagt á skrifstofuna að leysa þetta mál. Þá kemur í ljós að það var klippt af bílnum út af DRÁTTARVÖXTUM sem höfðu lagst á umskráningargjaldið þar sem við greiddum það ekki alveg á réttum tíma í fyrra. Við höfum ALDREI fengið neinar upplýsingar um þessa dráttarvexti og enga rukkun fyrir þeim. Og þessir svakalegu dráttarvextir voru alveg heilar 24 Nkr. eða svona um 250 ísl. krónur. Ég meina það. Svo gat hann ekki borgað þetta á staðnum heldur þurfti að fara í banka með gíróseðil upp á 24 krónur til að fá stimpil á þetta. Hér er rándýrt að borga gíróseðla í banka, þeir taka 40 krónur (ca 400 ísl.) í þjónustugjald. Þannig að blessaður gíróseðillinn var mun dýrari en sjálf skuldin. Og ekki nóg með þetta vesen heldur vorum við rukkuð um fokking 2400 Nkr. í SEKT. Þetta er um 25 þúsuns íslenskar. Ég á bara ekki orð yfir fávitaskap og stífleika. Þar að auki er þetta jafnvel ekki einu sinni löglegt því það eru einhverjar reglur hér um að það sé skylda að láta vita af skuld og gefa fólki kost á að greiða hana áður en gripið er til aðgerða. Við erum búin að leggja inn kvörtun yfir þessu og ég þarf svo eiginlega bara að kynna mér betur lögin í kringum þetta. En að hreinlega gera þetta. Og afhverju ekki bara rukka þá þessa blessuðu dráttarvexti með t.d. bifreiðagjöldunum? Ferköntuðu Norðmenn sko *GARG*

En jæja, bíllinn er allavegana kominn á númer aftur og Bjöggi fór í vinnuna í morgun :D