laugardagur, júní 19, 2004

Unglingamamma?

Ég held bara að hún elsta dóttir mín sé flutt að heiman. Hún hefur gist eina nótt heima hjá sér þessa vikuna. Á mánudaginn gisti hún hjá Renate, á þriðjudaginn líka (ég var á kvöldvakt), á miðvikudaginn gisti hún heima hjá sér, á fimmtudaginn hjá Karine (ég var líka á kvöldvakt þá) og í gær hjá Renate aftur. Svo hringdi Elísa í dag og það var svo svakalega gaman þannig að þær suðuðu og suðuðu um að Elísa fengi að gista aðra nótt. Ég bara fann enga ástæðu til að banna henni það svo hún fékk bara að gista aftur. Sumarið að koma og skemmtilegt að vera til. Renate er líka bara aðra hvora viku þarna hjá pabba sínum, hina vikuna býr hún hjá mömmu sinni sem býr lengra í burtu. Allavegana virðist pabba hennar Renate finnast þetta í góðu lagi, hugsa líka bara að þær séu ósköp góðar og sjálfum sér nægar þegar þær eru svona tvær saman. Renate virkar voða góð og indæl stelpa ;)

Annars er ég að rembast við að reyna að taka til. Er svona hálfnuð með eldhúsið, þvílíkt drasl. Uppvask í stórum stöflum. Annars bakaði ég mér voða gott kolvetnissnautt brauð, keypti bara tilbúið brauðmix sem maður blandar bara vatni, olíu og geri út í. Fínt að eiga eitthvað brauð sem maður getur leyft sér stundum :D

Kallinn er að horfa á fótboltann, en ekki hvað sko ;) Ég hef svona takmarkaðan áhuga á honum, finnst reyndar fínt að sofna yfir þessu :þ

föstudagur, júní 18, 2004

Þrumur og eldingar

Vá, það var ekkert smá þruma sem ég var að heyra í. Það er búið að vera svo hlýtt og gott í dag, en svo kom bara brálæðisleg hellidemba rétt áðan og núna er greinilega þokkalegt þrumuveður. Gaman, gaman :D Annars er svo mikið drasl hér og ég nýkomin heim úr vinnu, þannig að ég ætla bara að draga fjölskylduna á Makkann og borða þar. Nenni ekki að reyna að elda með allt í rúst í eldhúsinu. Verð svo að taka til á eftir... eða á morgun :Þ

fimmtudagur, júní 17, 2004

Iceland, here we come :D

Við erum búin að versla miða :D Fljúgum frá Kastrup flugvelli í DK þann 30. júlí og eigum að lenda klukkan 11:55 að íslenskum tíma. JIBBÍ!!! Förum svo aftur til Noregs þann 21. ágúst ;) Við ætlum að vera í Danmörku í ca viku áður en við förum til Íslands og heimsækja Tídda og Daju í Horsens. Skreppa í Legoland og svona. Verður örugglega svaka fjör. Vá hvað ég er farin að hlakka til :D

miðvikudagur, júní 16, 2004

Prakkarar

Arna og Hjalti eru komin upp í rúm, Bjöggi er í heimsókn hjá kunningja sínum og ég og Elísa erum að hugsa um að prakkarast og horfa á Harry Potter, þó svo klukkan sé orðin frekar margt og skóli hjá henni á morgun. Æ, maður má prakkarast stundum ;D

þriðjudagur, júní 15, 2004

Frumskógur dömubinda og túrtappa

Það er nú ekkert smá úrval í þessum geira, stundum veit maður bara ekkert hvað maður á að velja. Extra þunn bindi, þykk, ofurrakadræg, með fráhrindandi húð, löng, G-strengs-löguð, mini, næturbindi, með vængjum, án vængja, með þyrluspöðum (neeee, kannski ekki), túrtappar í allskonar stærðum, OB, einhver önnur tegund, með uppsetningargræju.... gwaaaaaaa!!!!!

Þegar ég var yngri lét ég sannfærast af auglýsingunum og var viss um að þessi þynnstu bindi og dýrustu, með vængjum og fráhrindandi húð væru best. En þessi blessaða plasthúð fór svo bara að pirra mig. Mér fannst alltaf eins og bindið væri rakt, það sætu blóðlifrar ofan á því (sorry ef þetta fer fyrir brjóstið á einhverjum) og ég fékk bara ekkert þessa frelsistilfinningu sem allar dömubindagellurnar í auglýsingunum hafa. Nei, ég uppgötvaði bara að þessi miðlungsþykku, með engri plastógeðshúð eru langbest. Vil reyndar hafa vængina sko ;)

Svo eru það túrtapparnir, kaupi alltaf bara einhverja NORMAL gerð og nota þá svona stundum, spari ;) T.d. ef ég er að fara eitthvað út og ef ég skyldi slysast í sund.

Þetta voru dömubinda- og túrtappapælingar kvöldsins. Eins og einhverjum hefur kannski dottið í hug þá er hún Rósa frænka í heimsókn akkurat núna. Eða bara einfaldlega: ég er á blæðingum.

mánudagur, júní 14, 2004

Sæla

Við vorum að fá senda DVD diska með barnamyndum með íslensku tali frá Íslandi (takk Anna María) og hér sitja tvö hamingjusöm börn og horfa spennt á Leitina að Nemo. Alveg frábært að fá þessa diska ;)

Annars var ég nú að hugsa að ég þarf að fara að komast að því hvenær skólinn er búinn hjá Elísu, ég bara veit ekki neitt. Svo þurfum við helst að kaupa farmiðana til Íslands á morgun og ætli ég þurfi ekki að kría út smá frí fyrir Elísu í ágúst. Reikna með að skólinn verði byrjaður áður en við komum til baka. Jæja, það kemur í ljós.

Frábært veður í dag. Það leit nú ekki vel út í morgun, rok og skýjað, en það rættist sko alldeilis úr því. 26 stiga hiti, sól og blíða. Ég leyfði Örnu og Hjalta að hjóla með mér út í búð áðan, svaka fjör að "lóa" eins og Hjalti segir. Elísa er náttúrulega bara úti að leika og sést varla. Núna langar hana og Karine svo rosalega að kaupa sér alveg eins föt "því þær eru svo miklar pæjur og bestu vinkonur". Híhí, fyndnar. Kannski ég leyfi henni að kaupa eitthvað á morgun, fer eftir hvað ég verð rík eftir lánaborganir og farmiðakaup.

sunnudagur, júní 13, 2004

Synd og skömm

Það er svo frábært veður úti og ég á næturvöktum og sef þetta allt af mér. Buhuhuhu! Ég vona að þetta haldist svona og verði líka um næstu helgi. Þá kannski maður geti skroppið á ströndina aftur ;) Svo væri nú gaman að skella sér einn dag í Tusenfryd. En jæja, það bíður mín víst önnur næturvakt í kvöld :/