sunnudagur, maí 02, 2004

Ég er hallærislegasta hjúkka í heimi!!!

Hvað haldiði að ég hafi gert á næturvaktinni s.l. nótt? Ég missteig mig svona hrottalega að ég þurfti að fá kollega minn til að keyra mig niður á bráðamóttöku þar sem ég var send í röntgen og læti. Fóturinn virðist sem betur fer ekki brotin, en ég er hrikalega bólgin og hef greinilega snúið mig illa, vona bara að liðböndin séu ekki slitin. Fóturinn er allur blár og bólginn og þetta var svo ógeðslega vont í nótt að ég hreinlega grenjaði af sársauka. Samt fannst mér sársaukinn minnsta málið því mér fannst eiginlega langverst að þurfa að sitja farlama í hjólastól niðri á slysó í hvítum hjúkkubúning með hjúkkunafnspjaldið framan á mér. Ekkert smá hallærisleg. Ég á bara ekki að vera í þessari aðstöðu, það er ÉG sem á að vera á bak við hjólastólinn, ekki í honum :Þ. En jæja, slysin gerast víst fljótt. Skil ekki hvernig ég fór að þessu.

Svo var ég náttúrulega að drepast úr verkjum ennþá þegar ég kom heim, fékk samt góðar stuðningsumbúðir og íspoka á bólguna. Tók svo bara verkjatöflur og lagði mig þegar ég kom heim. Ég gat nú ekki einu sinni keyrt bílinn heim, en hún Eva sem var með mér á vakt var svo yndisleg að keyra mig heim og keyra svo Bjögga til baka að sækja bílinn. En allavegana þegar ég vaknaði var ég bara alveg verkjalaus og fannst ég fær í flestan sjó. Gat meira að segja alveg stigið í fótinn og labbaði inn á klósett, vel hölt að vísu. En Adam var ekki lengi í Paradís, því um leið og ég var búin að taka nokkur skref þá blossaði sársaukinn upp aftur. Ég á greinilega EKKI að vera að reyna neitt á fótinn strax. Svo Bjöggi elska fór og reddaði hækjum á læknavaktinni og ég tók bara annan skammt af verkjatöflum sem eru greinilega að virka núna. En það er ekki séns að ég geri mér það aftur að reyna að stíga í fótinn strax.

Ég get auðvitað ekki farið á næturvakt í nótt, fékk strax vottorð frá lækninum á bráðamóttökunni upp á það. OH!!! ER HÆGT AÐ VERA SVONA MIKILL KLAUFI??? Liðið á bráðamóttökunni hélt nú bara að við værum að grínast fyrst þegar Eva hringdi og sagði að ein hjúkkan sem væri með henni á vakt hefði misstigið sig illa og þyrfti að koma niður í tékk. En þetta var því miður ekkert grín :/ Vona bara að þetta verði fljótt að jafna sig, ferlegt að vera svona farlama :(

laugardagur, maí 01, 2004

JESS JESS LOKSINS!!!!

Loksins datt Sandra út úr Idol. Margaret var alveg brilliant í gærkvöldi og Susanne var líka mjög góð. Kjartan hefur verið betri, en hann er aldrei lélegur. En ég var voða ánægð með þessi úrslit ;)

Annars er bara KLIKKAÐSLEGA gott veður, sól og örugglega vel yfir 20 stiga hiti í sólinni þótt mælirinn í skugganum sýni 18-19 gráður. Allavegana er þetta svona veður þar sem þú eiginlega ÞARFT að vera í stuttermabol úti. Svo er líka kosturinn hér að það er eiginlega aldrei þessi kaldi vindur sem á það til að skemma allt góða veður heima á Íslandi. Hér er bara oftast logn, og ef er vindur þá er hann hlýr. Nú er smá gola, en virkilega hlý og notaleg :D Og svo eyðir maður öllum deginum í að sofa, buhuhu, tvær næturvaktir eftir í þessari lotu. Annars er nú einmitt málið að maður þarf ekkert að vera að "nýta veðrið" hér eins og á Íslandi. Þegar við fluttum hingað fyrst þá var alveg hrikalega hlýtt, um og yfir 30 stiga hiti og sól alla daga. Fyrst þá var maður alltaf að drífa sig út til að "nýta veðrið", en komumst nú fljótt að því að það þarf ekkert að vera að "nýta veðrið" hér á sumrin, því það er bara oftast rosa gott veður ;)

En þaðer greinilega komið sumar, bátarnir eru farnir að sigla á ánni og ÞAÐ er sko merki um að það sé komið sumar ;)

föstudagur, apríl 30, 2004

Æðislegt veður í dag, fór upp í 20 stiga hita, þó það væri ekki neitt sérstaklega mikil sól. Bara ofboðslega milt og notalegt. Elísa er með svo óþægilegt exem á olnbogunum og við fórum til dokksa í dag sem skrifaði upp á sterkt sterakrem fyrir hana sem hún á að nota í smá tíma. Við vorum búin að reyna venjulegt hydrokortison og önnur krem án árangurs. Svo keyptum við einhverja voða góða baðolíu og hún á að fara í bað með svona olíu ca tvisvar í viku. Hún er nefninlega með svo þurra húð, hefur eiginlega alltaf verið svona en sérstaklega þegar hún var yngri. En núna er stelpan komin með þetta exem og er þar að auki með þessa þurru húð, svo við ætlum aðeins að reyna að smyrja hana og fita... sko húðina, ekki Elísu ;)

Arna er að horfa á Risaeðlurnar í örugglega 120. skiptið eða þannig. Hún er ekkert smá heilluð af þessari mynd. Þau eru náttúrulega búin að vera úti að leika í allan dag á leikskólanum, og Hjalti líka. Við keyptum ís af ísbílnum áðan og allir eru búnir að fá ís (nema ég því ég er í átaki) og núna eru Arna og Hjalti að borða saltstangir og hafa það voða gott ;) Elísa er úti að leika, eins og alltaf ;) Nú er Russetími hér, en Russer eru krakkar sem eru að útskrifast úr framhaldsskóla, svipað og dimmittering heima, nema hér er þetta í rúmar tvær vikur, voða stuð hjá krökkunum. Svo deila þessir Russer út svona Russekortum, sem eru eiginlega bara svona grínnafnspjöld, og Elísa og vinum hennar finnst voða sport að safna svona Russekortum. Já, sumarið sko greinilega að koma :D

Svo er næturvakt á eftir hjá mér.

fimmtudagur, apríl 29, 2004

Það er bara búið að vera nóg að gera í dag. Var að vinna til 15 og ætlaði svo í sæktina, en var plötuð á einhvern hjúkkufyrirlestur í boði Glaxo Welcome. Það byrjaði klukkan 18 svo ég ákvað að sleppa ræktinni til að geta nú aðeins hitt börnin mín í dag. Annars var þetta fínn fyrirlestur. Það var talað um astma og króníska lungnasjúkdóma, og auðvitað talað um undralyfið Seretide sem Glaxo framleiðir ;) Við fengum smá dinner og alles og ég var svo komin heim um klukkan 21. Þá voru litlu börnin sofnuð... og reyndar Bjöggi líka, við hliðina á Hjalta. Elísa Auður var akkurat að koma heim og hún er sofnuð núna. Það er alltaf hasar hjá henni, lesið bara bloggið hennar.

Ég þarf ekki að vakna snemma á morgun, jibbí :D en ég þarf að fara á næturvakt annað kvöld. Það er nú alveg í lagi.

En já í sambandi við lungnasjúkdóma. Alltaf spila reykingarnar þarna inn í. Af þeim sem fá t.d. COPD (Chronic Obstructive Lung Disease) eru 80-90% sem reykja og má í raun rekja sjúkdómin beint til reykinganna. Hinir sem ekki reykja hafa oft unnið í óheilsusamlegu umhverfi, t.d. í miklu ryki eða innan um slæm efni. Lungnakrabbi er líklega enn meira reykingum að kenna. Já, þetta er helvítis skaðvaldur. Ef allir hættu að reykja myndu lífsgæði almennt aukast mikið og kostnaður í heilbrigðiskerfinu minnka svakalega.

miðvikudagur, apríl 28, 2004

Loksins hætt að rigna og komið gott veður og þá þarf ég að sofa allan daginn þar sem ég var á næturvakt. En ég verð eiginlega að skreppa smá út á eftir, bara svona til að anda að mér fersku lofti. Kannski ég meira að segja skreppi í ræktina. Fór í gær og í fyrradag og er voða ánægð með mig.

Hjalti er á útopnu hér, bleiulaus í einu stígvéli og með handklæði á hausnum að snúa sér í hringi. Algjör apaköttur. Arna er að horfa á Risaeðlurnar á DVD og finnst hún voða spennandi. Elísa er úti að leika eins og venjulega. Maður hefði nú eiginlega átt að reka Örnu út að leika, en ég lofaði henni víst í morgun að hún mætti horfa á þessa mynd þegar hún kæmi heim. Tek hana bara með mér í smá labbitúr á eftir, og Hjalta apakött líka. Ætla samt fyrst að setja hann í bleiu og buxur, og ekki fara út á stígvélunum ;)

þriðjudagur, apríl 27, 2004

Ég hefði átt að hafa meiri áhyggjur af þessu foreldraviðtali, eða þannig. Það var nú bara ekkert sett út á þessa miðagleymsku, greinilega ekki verið eins oft og ég hélt sem þetta hefur gleymst. En ég veit samt upp á mig skömmina, að ég ætti að kíkja í töskuna á hverjum degi til öryggis. Annars fékk Elísa bara hrós fyrir að vera dugleg í skólanum, stillt og kurteis. Það eina sem kennarinn setti smá út á var að Elísa og Solveig bekkjarsystir hennar, en þær sitja saman, eiga það til að blaðra svolítið í tímum, en hvaða stelpur gera það ekki? Enda var kennarinn ekkert að gera þetta að neinu vandamáli, bara svona minna Elísu á að passa þetta aðeins betur. Já, og svo sagði hún að Elísa mætti þora aðeins meira að segja frá þegar það er svona "fortellestund" eða frásagnarstund ;) Þá geta þau sagt frá einhverju sem þau hafa verið að gera eða heyrt um. En hún Elísa mín er sem sagt voða stillt og prúð og kurteis í skólanum ;)

mánudagur, apríl 26, 2004

Kræst, hann sonur minn er svo hrikalega þrjóskur og matvandur stundum að það hálfa væri nóg. Nú er hann búinn að sitja við matarborðið í hálftíma og væla af því að hann vill ekki matinn sem er lagður á borð fyrir hann. Bara í alveg hrikalegri fýlu. Hvað á maður að gera við svona gaura??? *andvarp* Svo þegar hann er í stuði þá getur hann étið þvílíkt magn, en núna þá er það ekki séns, sama hvað ég reyni :S

Annars er ég að fara á fund með kennaranum hennar Elísu í kvöld, Elísa verður líka með. Veit ekki alveg hvernig það verður, er viss um að ég fæ skammir fyrir að fylgjast ekki nógu vel með í töskunni hennar þegar miðar eru sendir heim og svona *hóst*. Hún nefninlega gleymdi að skila mér miða þar sem boðað var á foreldrafund um daginn svo ég bara mætti ekkert. Auðvitað hefði ég bara átt að skoða í töskuna hennar og fylgjast betur með. Svo er eitthvað fleira sem hefur gleymst svona stundum, ojæja.

Sko, ég verð bara að benda ykkur á bloggið hennar Heiðu Maríu, þessarar brilliant, gáfuðu, skemmtilegu, orðheppnu, fallegu nördasystur minnar. Það er svo skemmtilegt að lesa það ;)

Iss piss og svo er bara hellidemba úti. Ég sem var að monta mig af góða veðrinu. Jæja, það er samt gott veður og verður betra ;) Annars er ég aðallega búin að vera að dundast í átaksblogginu mínu, finna önnur átaksblogg og lesa... voða gaman ;)

Ég var á kvöldvakt áðan, en er í fríi á morgun - ah það er svo gott að eiga frí svona inn á milli :D Ætla að finna mér einhverja góða mynd til að horfa á á eftir og letingjast í sófanum... á eftir... ef ég get slitið mig frá tölvunni :Þ