sunnudagur, apríl 18, 2004

Þá er maður kominn heim aftur eftir skemmtilegt partý. Það var rosa gaman í gær, mikið djammað og djúsað og allir kátir og hressir. Það var náttúrulega fullt hús af gestum hjá Mumma og Ólöfu og margir þeirra sem gistu. Ég fór að sofa svona á milli fjögur og fimm í nótt, en þeir hörðustu sátu til rúmlega sex ;) Við vorum svo komin til Sarpsborg rúmlega hálfþrjú að sækja Örnu og Hjalta. Þau voru nú bara ekkert á því að koma með heim, það var svo gaman hjá Unni og Sigga. En okkur tókst að plata þau með að lokum, hehe ;) Svo var alveg æðislegt að koma heim í hreina íbúð þó svo að grislingarnir séu ansi duglegir að tæta út dótið sitt, en það má alveg. Það væri nú glatað að fá ekki að leika sér með leikföngin sín. Elísa hefur sést hér í mýflugumynd og var svo strax rokin út aftur að leika við Karine. Annars erum við Bjöggi frekar þreytt, hann er reyndar sofnaður í sófanum, en ég sit hér og er eitthvað að dunda mér. Arna og Hjalti eru svo góð að leika sér... í bili allavegana. Ég bíð bara eftir að þau fari að rífast um eitthvað, hahaha. En well, ég er fegin að vera ekki á morgunvakt á morgun, ég fer á kvöldvakt. Þá þarf ég ekki að rífa mig á fætur klukkan hálfsjö allavegana, get sofið smá ;)

laugardagur, apríl 17, 2004

Þetta verður örugglega góður dagur :D Hér er allt skínandi hreint og fínt og við fengum Önnu og fjölskyldu í heimsókn áðan. Það var alveg frábært að hitta þau aftur. Katla er orðin svo mikil skvísa, ótrúlegt alveg. Og svo var auðvitað alveg frábært að sjá Berglindi, sem ég hef aldrei hitt, og auðvitað litlu Elfu, sem ég hef heldur aldrei séð, en hún er jafngömul Hjalta. En þau eru nýfarin núna, eru að fara að heimsækja vinafólk í Oslo. Arna er farin út að leika við Julie og Elísa er hjá Karine. Hjalti er að leggja sig með pabba sínum og ég held að ég fari bara að þeirra dæmi og safni smá kröftum fyrir veisluna hjá Mumma á eftir ;)

Annars er verið að skíra hana Ingrid Alexöndru krónprinsessu Norðmanna núna og sýnt á öllum sjónvarpsstöðvum... neee ekki öllum, en nokkrum ;) Hún bara grenjar og grenjar og er ekkert ánægð með þetta vesen ;)

föstudagur, apríl 16, 2004

Jahérna hér! Nú er ég sko alveg búin að missa álit á Norðmönnum og þeirra smekk á tónlist og tónlistarfólki... og búin að missa allt álit á þessu Idoli hér. Nú sendu þeir MARIU heim. Stelpan sem ALDREI hefur klikkað og alltaf verið lang-, lang-, langvinsælust í öllum skoðanakönnunum. Ég er bara ekki að ná þessu. Ætli allir hafi bara kosið einhvern annan til að breyta til og bara búist við að Maria kæmist hvort sem er áfram? En þetta er sko gífurlegur skandall. Það var nú skandall þegar Ahn var send heim, en þetta er ENN meiri skandall. Blöðin verða óð yfir þessu á morgun. Þetta er bara ótrúlegt. Það er nákvæmlega enginn annar af keppendunum með svona mikla stjórn á röddinni, ég er að tala um hæfileika á borð við Whitney Houston. Fuss á Norðmenn sko... og svo kjósa þeir Söndru áfram... ég bara á ekki orð. Sem betur fer er Margaret þarna og Kjartan, annars myndi ég ekki nenna að horfa á þetta meir.

En jæja, Anna og familí koma á morgun og ég verð að klára að taka til í stofunni, varð bara að tjá hneykslun mína á Idolinu fyrst.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

JIBBÍ!

Það beið mín ekkert smá skemmtilegur glaðningur þegar ég kom heim úr vinnunni í dag. Hún Kolla yndislega netvinkona hafði sent mér pakka og í honum var spóla fyrir krakkana með íslensku barnaefni, íslenskt nammi, m.a. nokkur páskaegg númer 1 og harðfiskur :D. Arna og Hjalti eru alveg alsæl núna að horfa á Ástu og Kela í Stundinni okkar og við ætlum sko að gæða okkur á smá sælgæti eftir matinn sem hinn yndislegi eiginmaður minn er að elda (pizza keypt úti í búð ;). Svo er bara að halda áfram að taka til, Bjöggi minn tók eldhúsið alveg í gegn í dag og nú er það alveg tandurhreint og angar af hreinlæti... og pizzulykt.

miðvikudagur, apríl 14, 2004

Þá er að blása í sig orku og fara að taka til. Svaf til eitt í dag, hmmm... það er alveg nóg. Nú bara verður að ráðast á eitthvað af þessu drasli sko. Ég ætla í þetta sinn að byrja á herberginu okkar, sem hefur alltaf fengið að sitja á hakanum og beðið þar til síðast. Jamm og jæja, af stað!!!

mánudagur, apríl 12, 2004

Kræst sko! Það er allt á hvolfi hér. Svona er þetta alltaf eftir næturvaktirnar. Ekkert skipulag á einu né neinu. Og svo krakkarnir auðvitað hálflasnir í þokkabót. Arna er nú eiginlega orðin góð en Hjalti var hundlasinn þegar ég kom heim í morgun. En svo hefur hann skánað með deginum og er bara nokkuð hress núna, en ekki hitalaus samt. En ég er í fríi fram á fimmtudagsmorgun svo ég ætti að geta gert eitthvað hér á heimilinu næstu daga. Svo erum við að fara til Mumma og Ólafar næstu helgi að djamma. Mummi er að halda upp á þrítugsaafmælið sitt. Við erum meira að segja búin að fá pössun fyrir krakkana (svo það er eins gott að þau verði ekki lasin þá). En svo eru Anna og Kalli í Sverige að hugsa um að droppa við í smá kaffi á laugardeginum, áður en við förum til Heggedal til Mumma og Ólafar. Þau eru sjálf á leiðinni til Oslo að heimsækja vinafólk og það er nú bara möst að kíkja við í kaffi hér í leiðinni ;) (þá verð ég líka að taka til ;)